Vínklúbbur fyrir þau sem hafa áhuga á víni

Chateau Lamothe-Vincent Héritage 2016

Víngarðurinn segir;

„Einn af fastagestunum í Víngarðinum er þetta vín hér, hið rauða Chateau Lamothe-Vincent Héritage sem hefur ár eftir ár verið eitt af betri kaupunum þegar kemur að ódýrari Bordeaux-vínum. Árgangarnir 2010 og 2014 voru hreint afbragð og þótt mér fyndist að árgangurinnn 2015 væri of sprittaður og Nýjaheims-legur þá voru þeir allir í kringum fjórar stjörnurnar. Árgangurinn 2016 er sem betur fer viðsnúningur til hinna fínlegu og hefðbundnu Bordeaux-vína og hugsanlega er þetta besti árgangurinn af þessum fjórum.

Það er blandað úr Merlot og Cabernet Sauvignon og býr yfir djúpum, plómurauðam lit og hefur dæmigerðan Bordeaux-ilm þar sem finna má krækiber, sólber, kaffi, bláberjasultu, vanillukennda eikartóna, rykug steinefni og plástur. Það er svo ríflega meðalbragðmikið, þurrt og sýruríkt með nokkuð áberandi og þétt tannín sem þó eru fínkornótt. Keimurinn minnir á krækiber, brómber, sólber, plómur, kaffi, brenndan sykur, steinefni og vanillu. Upprunalegt, ljúffengt og aðgengilegt Bordeaux-vín þótt það sé auðvitað ekki neitt gríðarlega persónulegt. Klassískt að hafa það með lambi, það klikkar ekki. Verð kr. 2.499.- Frábær kaup. “

Solas Pinot Noir 2017

Vinotek segir;

Solas Pinot Noir er hið prýðilegasta rauðvín frá suður-franska vínhúsinu Laurent Miquel. Pinot Noir er þrúga sem maður tengir yfirleitt ekki við Languedoc-svæðið en hún unir sér ágætlega á ekrum sem eru hátt yfir sjávarmáli. Liturinn er fagurauður, í nefi rauður og þægilegur berjaávöxtur, í munni sýrumikið, létt og ferskt. Þetta er vín sem alveg má bera fram örlítið kælt, kannski vði 16-18 gráður og njóta með laxi, kjúkling eða ostum. 2.399 krónur. Mjög góð kaup. Rauðvín sem vel má bera fram með fiski, ekki síst laxi.

Michel Lynch Bordeaux 2017

Vinotek segir;

„Michel Lynch eru vín sem framleidd eru af Cazes-fjölskyldunni sem er ein af rótgrónu vínfjölskyldunum í Bordeaux. Þekktasta vínhús þeirra er Chateau Lynch Bages á Bages-hæðinni í Pauillac sem einnig er kennt við Thomas-MIchel Lynch, sem stofnaði vínhúsið á nítjándu öld ásamt vínhúsum sem í dag eru þekkt undir nöfnunum Lynch-Moussas og Dauzac. Þetta er einfalt en mjög vel gert Bordeaux-vín, dimmrautt á lit, ungt yfirbragð, í nefinu bláber og krækiber, kryddjurtir, greninálar, mjög þurrt með ferskri sýru. 2.299 krónur. Frábær kaup. Skothelt Bordeaux-vín fyrir peninginn. Reynið með pottréttum eða andarbringum. “

Willm Grand Cru Kirchberg de Barr Riesling 2015

Vinotek segir;

„Kirkjuhæðin við Barr eða Kirchberg de Barr er ein af Grand Cru-ekrum Alsace-héraðsins en í þann flokk falla alla bestu vínekrur héraðsins sem í gegnum aldirnar hafa sýnt fram á einstök sérkenni. Fyrir tugmilljónum ára var þetta svæði undir hafi og smátt og smátt myndaðist jarðfræðilega margslunginn jarðvegur á hafsbotninum. Þessi jarðvegur sem nú má finna í jarðlögunum í hlíðunum upp af Rín myndar kjöraðstæður til vínræktar.

Ekran Kirchberg er á hæð sem teygir sig upp frá Saint Martin-kirkjunni í bænum Barr en þar er vínhúsið Maison Willm einnig til húsa.  Þetta Riesling-vín er magnað. Gullið á lit, þykkt og feitt, steinolía og sykurlegnar sítrónur, sítrónukaka, þykkt og langt með þægilega sætum ávexti. 3.499 krónur. Frábær kaup. Magnað vín fyrir vandaða fiskrétti þess vegna með þykkum og bragðmiklum sósum.“

Cune Ribera del Duero Roble 2016

Vinotek segir;

„Cune er eitt af stóru vínhúsunum í Rioja og hefur einnig verið að teygja út angana til annarra héraða, þar á meðal til Ribera del Duero. Þetta vín er flokkað sem Roble, en það eru yngstu vínin sem ekki eru geymd eins lengi á eik og á flösku áður en þau fara í sölu. Cune Ribera del Duero er létt og ávaxtaríkt vin, mildur og rauður berjaávöxtur rifsber, kirsuber, sýrumikið ferskt og létt. Mjög góð kaup. Ágætis alhliða matarvín.“

Ramon Roqueta Tina 12 Macabeo-Chardonnay 2018

Vinotek segir;

„Ramon Roqueta-vínin ættu að vera lesendum síðunnar ágætlega kunnuð enda hafa rauðvínin þeirra verið í all nokkru uppáhaldi hjá okkur. Það er hins vegar ekki síður ástæða til að gefa  hvítvíninu Ramon Roqueta Tina 12 gaum.  Þetta er blanda úr tveimur þrúgum, annars vegar frönsku Búrgundarþrúgunni Chardonna og hins vegar Macabeo sem einnig er þekkt sem Viura á Spáni. Vínið er fölgult á lit, þægileg angan af límónu og þroskuðu ferskjum og ástaraldini, ferskt og þægilegt í munni, míneralískt með mildri seltu í lokin. 1.899 krónur. Frábær kaup. Sjarmerandi vín sem gefur mikið fyrir peninginn. Vín á pallinn, fordrykkinn eða með sushi.“

Laurent Miquel Albarino 2016

Vinotek segir;

„Albarino-þrúguna tengja flestir við Galisíu í norðausturhluta Spánar og norðurhluta Portúgal. Það bendir þó margt til að upphaflega hafi þessa þrúgi borist þangað frá Frakklandi með pílagrímum  frá Cluny er gengu Jakobsveginn til borgarinnar Santiago de Compostela. 2.499 krónur. Mjög góð kaup. Ferskt og þægilegt sem fordrykkur eða með léttum sjávarréttum. Sérpöntun. “

Hess Collection Allomi Napa Valley Cabernet Sauvignon 2016

Vinotek segir;

„Allomi er vínekra við rætur austurhlíða Howell Mountain í Napa dalnum í Kaliforníu. Meginþungi blöndunnar eða 85% er auðvitað Cabernet Sauvignon en í henni er líka að finna Petite Syrah, Petit Verdot, Malbec og Merlot.

Dökkt á lit, dimmfjólublátt, ávöxturinn er heitur, mjúkur og sætur, plómur og sólber. Eikin er framarlega og alltumlykjandi með vanillutónum, mokka og vindlakassa. Áferðin er þykk og mjúk með sýru sem heldur v´ninu fersku.

 3.999 krónur. Frábær kaup. Elegant og flott vín fyrir t.d. grillað lamb og naut, jafnvel í kröftugri marineringu eða með BBQ-sósu. “

Laurent Miquel Pas de Géant 2016

„Hjónin Laurent og Neasa Miquel koma annars vegar frá Languedoc í Frakklandi (Laurent) og hins vegar Írlandi (Neasa) og nöfn nokkurra vína hússins endurspegla þetta fransk-írska samband. Pas de Geant er eitt þeirra en franska hugtakið „pas de geant“ má þýða sem „risaskref“ og vísar til Giant‘s Causeway sem er stuðlabergstangi á norðurströnd Írlands. Laurent Miquel Pas de Géant 2016 er Syrah-Grenache-blanda, dökkt, ungt og sprækt. Fjólublátt á lit og í nefi krækiber, lakkrís, svartar ólífur, vínið  kryddað, piprað, mjög þurrt. 2.399 krónur. Frábær kaup. Gefið víninu tíma til að opna sig. Vín fyrir bragðmiklan franskan mat, lamb, önd og ekki verra að hafa mikið af kryddjurtum. “

Quinta do Crasto Tinta Roriz 2015

Vinotek segir;

„Quinta do Crasto er eitt af bestu vínhúsum Douro-dalsins í Portúgal. Það á sér langa sögu en hefur undanfarna þrjá áratugi verið í eigu Roquette-fjölskyldunnar sem hefur auk portvína lagt áherslu á framleiðslu á frábærum borðvínum. Tinta Roriz er eitt af toppvínum hússins og nafnið er portúgalska heitið á þrúgunni sem flestir þekkja líklega undir spænska heitinu Tempranillo og er meginþrúga t.d. Rioja og Ribera del Duero.

Þetta er mikið vín, liturinn djúpur, svarfjólublár. Ávöxturinn er ekki síður dökkur, krækiber, sólber, sultaður, kryddaður og heitur. Vínið er samþjappað og kröftugt, eikin framarlega, sæt vanilla, það er tannískt en tannín eru mjúk, vínið feitt og þykkt, sýrumikið og ferskt. Vín sem á geyma, hiklaust að umhella.

5.999 krónur. Geggjað vín. Með vel hanginni nautasteik, villibráð eða bragðmiklum, hægelduðum réttum á borð við Osso Buco. “