Cerro Añon Gran Reserva 2015

 

 

Víngarðurinn segir;

Þótt framboðið af góðum vínum frá Spáni sé töluvert hérna á landi, ekki síst frá Rioja og Ribera del Duero, þá eru þar þó inná milli algerar perlur sem allir aðdáendur góðra vína geta eiginlega ekki látið framhjá sér fara. Eitt af þeim vínum er þetta hér, Gran Reservan frá Cerro Añon og ég þykist vita að það eru fleiri en ég sem hafa áttað sig á því hversu gott þetta vín er og hversu góð kaup það er.

Bodegas Olarra sem ber ábyrgðina á þessu víni verður tæpast skilgreind sem framsækin og nútímaleg víngerð án þess þó að vera beinlíniss talin hefðbundin einsog R. Lopez de Heredia eða La Rioja Alta. Nei, Olarra er svona með sitthvorn fótinn í fortíðinni og nútímanum og sum vínin eru fersk, rauð og nútímaleg, eingöngu úr Tempranillo, meðan önnur eru þroskuð á hefðbundin hátt í langan tíma og blönduð úr fleiri en einni þrúgu. Þannig er það með þetta vín, það er vissulega að mestu leiti úr Tempranillo en þarna eru líka þrúgurnar Graciano og Mazuelo.

Það er djúp-fjólurautt og ógagnsætt að sjá með rétt ríflega meðalopinn ilm þar sem rekast má á rauð ber, dökk sultuð ber, mokkasúkkulaði, þurrkaðan appelsínubörk, gerjaðan heybagga, kókos og yfir þessu eru alltumlykjandi kremaðir vanillutónar með vanillu og toffí. Þrátt fyrir að vínið hafi verið þroskað í tunnu og flösku undanfarin sex ár þá er það unglegt og spriklandi ferskt að sjá og ilmurinn er enn sem komið er á barnsaldri. Það er svo meðalbragðmikið og mjúkt með afar langvarandi bragð og frábært jafnvægi. Það er sýruríkt, fínlegt og jarðbundið en jafnframt afar ljúffengt með keim af sultuðum dökkum berjum, rauðum berjum, kókos, dökku súkkulaði, þurrkuðum ávöxtum, leirkenndum steinefnatónum og að sjálfsögðu kremuðum vanillutónum. Dæmigert og fullvaxið Rioja-vín, afar auðdrekkanlegt en einnig með hátt flækjustig og fínleika fyrir okkur vínnördana. Árgangurinn 2011 var hér til umfjöllunar fyrir jólin 2020 og þá munaði það sáralitlu að það fengi fullt hús. Árgangurinn 2015 er af slíkum gæðum að það er erfitt annað en að veita þessu víni fimm stjörnur. Hafið það með flottum steikum, ekkert endilega mikið krydduðum. Ég sting uppá lambalæri.

Verð kr. 3.699.- Frábær kaup.

Post Tags
Share Post