Saint Clair Vicar’s Choice Sauvignon Blanc  2020

 

 

Víngarðurinn segir;

Hér er kominn ný árgangur af þessu sí-vínsæla hvítvíni sem Víngarðurinn hefur fengið reglulega inn á borð til sín og alltaf verið býsna hrifinn af, enda reglulega vel gert vín sem hefur skýr þrúgueinkenni og ljúfleika, þótt varla sé hægt að segja að það sé eitt af persónulegustu vínunum sem í boði eru.

Einsog ég hef nokkuð oft ritað um þá hefur hin franska Sauvignon Blanc náð töluverðri útbreiðslu á Nýja-Sjálandi undanfarna þrjá áratugi, enda ákveðin skilyrð í loftslagi og jarðvegi á þeim slóðum sem fara vel með þessa þrúgu. Vínin hafa þó löngum verið nokkuð ólík hinni frönsku fyrirmynd í Sancerre eða Bordeaux þótt minna skilji þau að núna, árið 2022, en rétt fyrir aldamótin síðustu, þegar þau slógu í gegn í Evrópu. 

Þessi árgangur er ljós-sinugulur að lit með grænni slikju og meðalopna, ákaflega dæmigerða angan þar sem finna má sítrónur, læm, greipaldin, stikilsber, rifsber, aspas og nýslegið gras. Þetta er, einsog heyra má, nokkuð grænn og grösugur ilmur og minna en oft áður um hina suðrænu tóna sem minna á ástríðuávöxt, papaya og ananas og voru eitt helsta einkenni hinna nýsjálensku Sauvignon Blanc-vína hérna á árum áður. Það er svo meðalbragðmikið með frábæra sýru og reglulega gott jafnvægi alla leið út í gegn. Þarna eru það sítrusávextirnir áberandi, sítróna, læm og greipaldin en einnig frændskyldu berin rifs- og stikilsber ásamt aspas og ögn af feskri peru. Skýr þrúgueinkenni og ljúffengt viðmót gera þetta vín ákaflega auðdrekkanlegt, sérstaklega fyrir þá sem elska Sauvignon Blanc og það er fínt sem lystauki fyrir matinn eða þá með forréttum, salötum og meðalbragðmiklum fiski.

Verð kr. 2.799.- Frábær kaup

Post Tags
Share Post