Willm Pinot Noir Rosé 2021

 

 

Víngarðurinn segir;

 

Einsog ég nefndi í síðasta pistli er merkilega mörg rósavín, sem okkur standa til boða þessa dagana, úr þrúgunni Pinot Noir. Villa Wolf er upprunnið í héraðinu Pfalz í Þýskalandi, en vestan við Rínarfljótið er það auðvitað Alsace. Þar er einungis ein rauð þrúga leyfð og það er einmitt Pinot Noir. Undanfarin ár og með hækkandi hitastigi hafa rauðvínin frá Alsace orðið efnismeiri og því hlaut að koma að því að rósavínin þaðan fengju einnig verðskuldaða athygli. Willm er auðvitað traustur og vel kynntur framleiðandi hérna á Íslandi og það er full ástæða til að verða sér út um þetta sumarlega rósavín næstu vikurnar.

Það hefur ljósan, kirsuberjarauðan lit og meðalopna angan af ferskum rauðum berjum en þó aðallega jarðarberjum en einnig peru, rifsberjum, Cantaloup-melónu, mandarínum og vaxkenndri fiturönd. Það er svo meðalbragðmikið, ungt og ferskt með sprikklandi sýru og góða endingu. Þarna í munninum eru það perur, jarðarber, melóna, mandarína og mjólkurfita. Vínin frá Alsace eru að jafnaði meiri um sig en sambærileg vín austan Rínarfljótsins og þetta vín er engin undantekning. Árgangurinn 2021 hefur líka greinilega skilað vel þroskuðum Pinot Noir-þrúgum á þessum slóðum og það finnst glöggt bæði á þessu víni og svo hjá Villa Wolf. Þetta rósavín frá Willm er fyrst og fremt matarvín og gengur með afar fjölbreyttum matseðli: fuglakjöt, pottréttir, grillað lamb, bragðmikill fiskur og eflaust margt fleira. 

Verð kr. 2.999.- Mjög góð kaup

Post Tags
Share Post