Villa Wolf Pinot Noir Rosé 2021

 

 

Víngarðurinn segir;

 

Þau eru nokku rósavínin þessa dagana, er okkur standa til boða í einokunnarversluninni, sem gerð eru úr þrúgunni Pinot Noir. Það er sennilega bara tilviljun því svona tölfræðilega er mun meira af rósavínum á heimsvísu gert úr allt öðrum þrúgum en Pinot Noir. En eftilvill er núna að renna upp tími hennar sem rósavínsþrúgu og sannarlega hefur hún marga kosti til slíks. Hún er sjálf ekki mjög litdjúp, fullgerjuð er hún sjaldan há í alkóhóli og hún er sannarlega mikil gæðaþrúga. Við sjáum rósavín úr henni frá Languedoc og Alsace (sem reyndar er eina rauða þrúgan sem leyfð er þar) en þetta vín hérna, Villa Wolf Pint Noir Rosé er reyndar upprunnið í Þýsakalandi og hefur verið eitt af traustustu kaupunum þegar kemur að rósavínum á undanförnum árum.

Þessi árgangur hér er sá nýjasti í röð margra frábærra og ég verð að viðurkenna að það er í sérstöku uppáhaldi hjá mér, enda einhver bestu kaupin sem hægt er að gera. Það býr yfir ljósum rifsberjarauðum/laxableikum lit og hefur rétt ríflega meðalopna angan þar sem líklegt er að rekast á peru, kirsuber, jarðarber, melónu, perubrjóstsykur, rautt greipaldin og jógúrt. Það er svo meðalbragðmikið með afar ljúffengan ávöxt sem er býsna þéttur. Þarna má rekast á jarðarber, peru, melónu og laktíska tóna sem minna á rjóma eða jógúrt. Það inniheldur einnig örlitla kolsýru sem eykur enn á ferskleika þess, en sýran er alveg sérlega frískleg og endingin á þessu víni er merkilega mikil. Þetta er er ögn þéttara og efnismeira rósavín en undanfarnir árgangar og sennilega hefur árgangurinn 2021 skilað afar þroskuðum og flottum berjum í hús. Það er frábært eitt og sér en það ræður við allskonar mat. Ég hef reynt það með bragðmiklu fuglakjöti, lambi og pítsum og það hefur virkað í öllum tilfellum. Alhliða sumarvín!

Verð kr. 2.499.- Frábær kaup.

Post Tags
Share Post