Contino Reserva 2017

 

 

Víngarðurinn segir;

CUNE-samsteypan í Rioja var lengi vel einhverskonar risaeðla sem lifði á fornri frægð, enda rótgróin víngerð á þessum slóðum og lengi vel var neyslan á vínunum nærri eingöngu innanlands. Þegar yngri og sprækari víngerðarmenn fóru svo af stað með það sem við gætum skilgreint sem „nútíma-Rioja“ og hófu að gera franskari/alþjóðlegri vín, þá gat þetta stórfyrirtæki auðvitað ekki setið eftir. Í dag hefur það tekið alla starfsemina rækilega í gegn og er nú, rétt einsog flestir aðrir, komnir á beinu brautina. Eitt af betri og glæsilegri vínunum sem CUNE framleiðir í dag er Contino, sem kemur frá nokkurskonar „Chateau-i“ í þorpinu Laserna sem staðsett er innan Rioja Alavesa og hafa þeir gert vín á þessum herragarði frá árinu 1973.

Reservan er að mestum hluta til úr þrúgunni Tempranillo en einnig eru þarna Graciano og Mazuelo og það er þroskað, eftir gerjun, um tveggja ára skeið í blöndu af frönskum og bandarískum eikartunnum svo útkoman er bæði í senn, hefðbundin og nútímaleg. Það er djúp-plómurautt að lit og þarna eru kirsuber, plóma, sultuð bláber, gerjaður heybaggi, sveskjur, sætur lakkrís og hellingur af kremuðum eikartónum sem minna á toffí og Bounty-súkkulaði og svo rykugur sveitavegur undirniðri. Virkilega flottur og margslunginn ilmur sem er þrátt fyrir allt býsna ungur og sprækur. Það er svo nokkuð kröftugt, þurrt og sýruríkt með langt og silkimjúkt bragð og frábært jafnvægi. Eikin er vissulega mikil en tannínin eru fínpússuð og sæt svo það verður aldrei neitt sérstaklega erfitt að njóta þess. Þarna má svo rekast á sultuð bláber, kirsuber, þurrkaðan appelsínubörk, Bounty-súkkulaði, vanillu og leirkennd steinefni. Alveg heillandi vín, ákaflega upprunalegt og glæsilegt í alla staði og verulega gott með mat. Prófið það með fínu lambalæri eða hægelduð svínakjöti.

Verð kr. 4.699.- Frábær kaup.

Post Tags
Share Post