Vínklúbbur fyrir þau sem hafa áhuga á víni

Grilltímabilið er í hámarki og þjóðarrétturinn, grillmatur af ýmsu tagi, kitlar bragðlauka landsmanna, funheitur og bragðmikill, nýkominn af opnum eldi. Það má vitaskuld grilla allt sem að grilli kemur yfirleitt og eftir því er mismunandi hvað hentar með matnum. En sé meiningin á annað borð að grilla kjöt þá er gott rauðvín ómissandi. Sé rauðvínið vel parað með kjötinu þá fæst ekki aðeins matur og drykkur sem passar vel saman, heldur dregur það besta fram í hvort öðru. Við tókum saman nokkur frábær rauðvín í öllum verðflokkum sem steinliggja með grillkjötinu í sumar!

 

 

Grillvín

Ramon Roqueta Tempranillo

Bragðlýsing:  Fjólurautt. Meðalfylling, ósætt, fersk sýra, þurrkandi tannín. Dökk ber, banani.

Styrkleiki: 13,5% vol

Land: Spánn

Hérað: Catalunya

Framleiðandi: Bodegas 1898 S.L

Þrúga: Tempranillo

Verð: 1.899 kr.

Passar með: Þetta vín passar með flestum mat. Nokkuð bragðmikið. Prófið með grilluðu svínakjöti og lambakjöti.

 

Grillvín

Adobe Reserva Syrah

Bragðlýsing:  Rúbínrautt. Þétt meðalfylling, ósætt, fersk sýra, þétt tannín. Sólber, brómber, laufkrydd, eik, lakkrís.

Styrkleiki: 14% vol

Land: Chile

Hérað: Valle de Central

Framleiðandi: Vinedos Emiliana

Þrúga: Syrah

Verð: 2.099 kr.

Passar með: Mjög gott vín, nokkuð bragðmikið, Prófið t.d. með kolagrilluðu lambi.

 

 

Grillvín

Ramon Roqueta Reserva

Bragðlýsing:  Kirsuberjarautt. Þétt meðalfylling, ósætt, fersk sýra, miðlungstannín. Dökk kirsuber, brómber, barkarkrydd, jörð.

Styrkleiki: 13,5% vol

Land: Spánn

Hérað: Catalunya

Framleiðandi: Bodegas 1898 S.L

Þrúga: Cabernet Sauvignon, Tempranillo

Verð: 1.999 kr.

Passar með: Frábært vín með rauðu grillkjöti og ostum. Prófið með grilluðu lambakjöti.

 

 

Grillvín

Cune Crianza

Bragðlýsing:  Kirsuberjarautt. Meðalfylling, ósætt, fersk sýra, miðlungstannín. Rauð ber, lyng, eik.

Styrkleiki: 13,5% vol

Land: Spánn

Hérað: Rioja

Framleiðandi: CVNE

Þrúga: Tempranillo

Verð: 2.299 kr.

Passar með: Frábært vín með rauðu grillkjöti og ostum. Prófið með grilluðu lambakjöti.

 

 

Grillvín

Flor de Crasto

Bragðlýsing:  Dökkrúbínrautt. Þétt meðalfylling, ósætt, fersk sýra, miðlungstannín. Brómber, bláber, lyng.

Styrkleiki: 14,5% vol

Land: Portugal

Hérað: Douro

Framleiðandi: Quinta do Crasto S.A

Þrúga: Tinta Roriz, Touriga Franca, Touriga Nacional

Verð: 2.399 kr.

Passar með: Kröftugt vín með þéttu berjabragði og nokkuð tannískt. Prófið með grilluðu svínakjöti.

 

 

Grillvín

Amalaya Tinto de Corte

Bragðlýsing:  Dökkrúbínrautt. Þétt fylling, ósætt, fersk sýra, þétt tannín. Kirsuber, trönuber, laufkrydd, lakkrís.

Styrkleiki: 14% vol

Land: Argentína

Hérað: Costal Region

Framleiðandi: Bodegas Amalaya

Þrúga: Malbec, Syrah, Tannat

Verð: 2.499 kr.

Passar með: Kröftugt vín með þéttu berjabragði og nokkuð tannískt. Prófið með grilluðum lambakótilettum.

 

 

Grillvín

Cune Reserva

Bragðlýsing:  Kirsuberjarautt. Meðalfylling, ósætt, fersk sýra, miðlungstannín. Rauð ber, kirsuber, laufkrydd, tunna

Styrkleiki: 13,5% vol

Land: Spánn

Hérað: Rioja

Framleiðandi: CVNE

Þrúga: Tempranillo

Verð: 2.799 kr.

Passar með: Bragðmikið og gott rauðvín sem passar með flestum mat. Prófið með grilluðu nautakjöti.

 

 

Grillvín

Glen Carlou Cabernet Sauvignon

Bragðlýsing:  Dökkkirsuberjarautt. Þétt fylling, ósætt, fersk sýra, þétt tannín. Sultuð rauð ber, sveit, jörð, laufkrydd, eik.

Styrkleiki: 14% vol

Land: Suður Afríka

Hérað: Costal Region

Framleiðandi: Glen Carlou Vineyards

Þrúga: Cabernet Sauvignon

Verð: 2.999 kr.

Passar með: Kröftugt vín með þéttu berjabragði og nokkuð tannískt. Hentar mjög vel með grilluðu nautakjöti.

 

 

 

Grillvín

Hess Select Cabernet Sauvignon

Bragðlýsing:  Dökkirsuberjarautt. Þétt fylling, ósætt, mild sýra, þétt tannín. Dökk kirsuber, súkkulaði, mandarína.

Styrkleiki: 13,8% vol

Land: Bandaríkin

Hérað: North Coast

Framleiðandi: Hess Family Wine Estate

Þrúga: Cabernet Sauvignon

Verð: 2.999 kr.

Passar með: Þétt berjabragð og nokkuð tannískt. Hentar mjög vel með grilluðu nauti eða lambi.

 

 

Grillvín

The Hess Collection Allomi Cabernet Sauvignon

Bragðlýsing:  Dökkkirsuberjarautt. Þétt fylling, ósætt, fersk sýra, þroskuð tannín. Sultuð kirsuber, sólber, súkkulaði, kókos, vanilla.

Styrkleiki: 14,5% vol

Land: Bandaríkin

Hérað: North Coast

Framleiðandi: Hess Family Wine Estate

Þrúga: Cabernet Sauvignon

Verð: 3.999 kr.

Passar með: Kröftugt vín með þéttu berjabragði og nokkuð tannískt. Hentar mjög vel með grilluðu nautakjöti.

Cointreau vinaigrette

 

Cointreau sítrus-vinaigrette

 

Hráefni

1 greipaldin

10 cl grapeseed olía

10 cl Cointreau

10 cl balsamikedik

Salt og Sichuan piparkorn eftir smekk

 

Aðferð

Kreistið greipaldinið í matvinnsluvél, en skiljið smá eftir af aldinkjötinu. Blandið öllum hráefnum svo saman í matvinnsluvélinni. Saltið og piprið eftir smekk. Það má nota þetta vinaigrette eftir þörfum. Mjög gott að nota útá öll salöt.

Amalaya Tinto de Corte 2016

Víngarðurinn segir;

Það er fjölskylda Donald Hess (sem gerir vín víða um heim, meðal annars í Kaliforníu og Suður-Afríku) sem gerir þetta vín í Calchqui í Argentínu og blandar þar saman þremur frönskum þrúgum sem sennilega hafa náð meiri útbreiðslu í Suðurálfu en í kringum Bordeaux, þaðan sem þær koma upprunalega. Þetta eru þrúgurnar Malbec, Tannat og Petit Verdot og útkoman er nokkuð kraftmikil og dæmigerð fyrir rauðvín frá þessum slóðum.
Það hefur ríflega meðaldjúpan, plómurauðan lit og kannturinn er vel þéttur. Það er meðalopið með ilm sem minnir á sultuð kræki-, blá- og brómber ásamt kirsuberjum í spritti, súkkulaði, plómum, tóbaki, málmi, kryddjurtum og einhverskonar reykelsis- eða reyktum tónum. Það er svo nokkuð bragðmikið með góða sýru en undirliggjandi þroskaða ávaxtasætu og ágæta endingu. Tannínin eru furðu mjúk (sé til þess tekið að þarna eru líklega þrjár af tannínskustu þrúgum frá Suð-Vesturhluta Frakklands samankomnar) og keimurinn leiðir hugan að sultuðum bláberjum, krækiberju, plómum, Mon Chéri-molum, kryddjurtum og dökku súkkulaði. Þetta er prýðilegt argentínskt rauðvín sem munar litlu að fái plúsinn í viðbót við stjörnurnar fjórar. Það er aðgengilegt og hefur fína byggingu þrátt fyrir þennan sætkennda grunn sem ég veit að mörgum líkar. Hafið með allskyns kjötréttum, pasta, pottréttum, grillmat og jafnvel steikum.
Verð kr. 2.499.- Mjög góð kaup.

Flor de Crasto 2017

Víngarðurinn segir;

Ég er virkilega ánægður með vínin frá Quinta do Crasto í Duoro-dalnum í Portúgal og síðast þegar þetta vín var dæmt hér var það árgangurinn 2015 sem fékk sömu einkunn, enda gæðin nokkuð stöðug hjá þessari víngerð. Það eru þrúgurnar Tinta Roriz, Touriga Franca og Touriga National sem blandaðar eru saman eftir kúnstarinnar reglum en það er ágætt að minna á að þrúgan Tinta Roriz er sama þrúga og Tempranillo handan landamæranna á Spáni.
Það hefur djúpan rauðfjólubláan lit og ríflega meðalopna angan af sultuðum bláberjum, Mon Chéri-molum, heyrúllum, lakkrískonfekti, sveskjum, austurlenskum kryddum, plómum og Madeira. Það hefur sætan undirtón en kryddaða yfirtóna og er vel dæmigert fyrir nútímaleg rauðvín frá Douro.
Það er sýruríkt, þétt og þurrt í munni með töluverð og mjúk tannín. Það endist vel og jafnvægið milli ávaxtar og byggingarinnar er einsog vænta má ákaflega gott. Þarna má greina sultuð krækiber, sultuð bláber, sprittuð kirsuber, dökkt súkkulaði, plómur, lakkrískonfekt og kínverskt fimm-krydd. Breiðir vel úr sér og hangir lengi inni. Þetta er verulega gott rauðvín og þarna fá menn mikið fyrir peningana, meira en alla jafna í Ribera del Duero sem auðvelt er að bera samanvið. Hafið með allskyns bragðmeiri kjötréttum, hægelduðum pottréttum, grillmat og nautakjöti.

Verð kr. 2.399.- Frábær kaup.

Saint Clair Omaka Reserve Chardonnay 2016

Víngarðurinn segir;

Vínin frá Saint Clair-víngerðinni á Nýja-Sjálandi ættu að vera öllum kunn. Það vín sem oftast hefur ratað inn á borð Víngarðsins er auðvitað Vicar’s Choice Sauvignon Blanc sem mörg ár í röð hefur verið afar traustur fulltrúi hins nýsjálenska Sauvignon Blanc-stíls. Þeir gera reyndar margskonar önnur vín og það besta sem ég hef smakkað frá þeim framtil þessa er þetta hér, Omaka Reserve Chardonnay sem stendur fyllilega samanburðinn við góð Village- og Premier Cru vín frá Búrgúnd. Og það á verði sem erfitt er að finna á þeim slóðum.
Þessi Chardonnay er gylltur að lit með rétt ríflega meðalopinn og búttaðan ilm sem minnir á kremaða Búrgúndara frá Meursault eða Chassagne þar sem finna má sæta sítrónu, ristaða eik, nektarínur, steinaávexti, eplaböku, kryddgrös og smjördeig. Það er svo nokkuð bragðmikið í munni með góða fiturönd um miðjuna og ýturvaxinn ávöxt þar sem greina má sæta sítrónu, eplaböku, peru, steinaávexti, greipaldin, smjördeig, heslihnetur og ristaða eik. Það hefur mikla lengd og ákaflega gott jafnvægi og er ennþá ungt og frísklegt. Hafið með ykkar bestu fiskréttum, humar og hörpudiskur ættu að passa vel með þessu en eins bragðmeiri fiskur einsog sólkoli og skötuselur. Fínt líka með allskonar bragðmeiri forréttum.

Verð kr. 3.299.- Frábær kaup.

Hess Select Pinot Noir 2016

 

Víngarðurinn segir;

Pinot Noir er dálítið dyntótt þrúga og helstu vínsnobbarar þessa heims vilja meina að hún gefi hvergi af sér góð vín nema í Búrgúnd og vilja jafnvel þrengja þá skilgreiningu niður í einstaka bletti í þeirri sveit. En einsog með allar góðar þrúgur þá er Pinot Noir ræktuð um gervallan heim og auðvitað með misjöfnum árangri, en þetta vín hér er upprunið á Central Coast-svæðinu í Kaliforníu. Það hefir meðaldjúpan, rúbínrauðan lit og dæmigerðan ilm af kalifornískum Pinot Noir þar sem finna má jarðarber, jarðarberjasultu, heyrúllur, málm, rykug steinefni og sælgætislega tóna sem minna á kirsuberjagospilluna gömlu góðu. Þetta er vissulega sætkennd og aðlaðandi angan enda er vínið með sólþroskaðan og sætan undirtón þegar það er smakkað, en góð sýra heldur þessu víni vel á lofti og það er blessunarlega ekki yfir-extrakterað einsog mörg Pinot Noir vín voru á sínum tíma og tannín eru flauelsmjúk. Þarna má svo finna jarðarber, jarðarberjasultu, kóla, kirsuber, steinefni og ögn af grænni papriku. Vel gert og bara býsna matarvænt rauðvín, létt og elegant. Hafið með dekkra fuglakjöti, ljósrauðu kjöti einsog kálfi og villibráð.

Verð kr. 2.999.- Góð kaup.

Adobe Reserva Syrah 2017

Víngarðurinn segir;

Neytendur ættu núna væntanlega að hafa tekið eftir hinum nýju umbúðum á Adobe-línunni hjá Emiliana-víngerðinni. Um daginn var ég með til umfjöllunar það sem mér þykir vera besta vínið (amk hingað til) af þeim vínum, Chardonnay 2018 (****), en þessi Syrah er nánast í sama gæðaflokki, munar bara tveimur punktum eða svo. Og allt eru þetta lífræn og nokkuð heilbrigð vín sem ættu ekki að vefjast fyrir neinum að smakka.
Þessi Syrah er upprunninn í Miðdal (Valle Centrale) í Chile og hefur meðaldjúpan lit af svörtum kirsuberjum. Það er svo rétt ríflega meðalopið með ilm sem minnir á rauð og krydduð ber, áfengislegin kirsuber, lakkrís, sólber, bláberjasultu, kanil og steinefni sem minna á leirkennt ryk eða ösku. Það er svo rétt ríflega meðalbragðmikið, ágætlega þurrt með góða sýru og keim af dökkum berjum, rauðum sultuðum berjum, kirsuberjum, lakkrís, sólber, kryddi og rykugum steinefnum. Þetta er fínast rauðvín en dálítið gróft og ungæðislegt þótt ég sé ekkert viss um að það verði betra með meiri þroska. Þetta er bara eitt af þessum neytendavænu og vel gerðu hversdagsvínum sem gott er að hafa á þriðjudögum með bragðmeiri kjötréttum.

Verð kr. 2.099.- Mjög góð kaup.

Vicar’s Choice Sauvignon Blanc 2018

Víngarðurinn segir;

Sauvignon Blanc-vínið frá Vicar’s Choice er gamall kunningi Víngarðsins og hefur margoft verið dæmdur hér og alltaf með góðum árangri. Þetta vín hefur unnið sér nokkuð traustan sess meðal íslenskra neytenda enda er hér á ferðinni prýðilegur fulltrúi hins nýsjálenska Sauvignon Blanc-stíls.
Árgangurinn 2018 er ljós-strágulur að lit og hefur meðalopinn ilm af dæmigerðum, suðrænum Sauvignon Blanc þar sem greina má stikilsber, rifsber, kramið sólberjalauf, sítrónur, perur, ananas, passjón og mangó. Það er svo rétt ríflega meðalbragðmikið með góða sýru, fínasta jafnvægi og ágæta lengd. Sítrónur, stikilsber, rifsber, sólber, sölt steinefni og suðrænir ávextir koma svo þarna við sögu og útkoman er dæmigerð, þægileg og matarvæn einsog alltaf. Hafið með allskonar meðalbragðmiklum forréttum, fiskréttum, ljósu pasta, ljósu fuglakjöti og svo er það líka gott bara eitt og sér á pallinum.

Verð kr. 2.599.- Mjög góð kaup.

Adobe Reserva Chardonnay 2018

Víngarðurinn segir;

Tvisvar áður hafa eldri árgangar af Adobe Reserve Chardonnay frá víngerðinni Emiliana í Chile komið inn á borð Víngarðsins (og reyndar fjölmörg önnur vín frá þessari sömu víngerð, enda er úrvalið af þeim gott hérna á landi) og í bæði skiptin fengu þau þrjár og hálfa stjörnu. Núverandi árgangur, 2018 er hinsvegar sá besti sem ég hef bragðað frá þeim og það er gaman að segja frá því að ég ætla að úthluta henni fjórðu stjörnunni.
Þetta er gyllt vín að sjá og hefur meðalopinn ilm af sætri sítrónu, soðnum eplum, perum, steinaávöxtum, perubrjóstsykri, austurlenskum ávöxtum og þá aðallega ananas. Það er svo rétt ríflega meðalbragðmikið með ferska og góða sýru og örlitla fiturönd á mjöðmunum sem gerir það sérlega ljúffengt. Þarna má greina sítrónubúðing, perur, austurlenska ávexti, greipaldin og perubrjóstsykur. Þetta er kannski ekki persónulegt íhugunarvín en það er ákaflega auðdrekkanlegt og ljúffengt og hefur nokkuð skýr upprunaeinkenni af chileskum Chardonnay. Ekki spillir að vínið er lífrænt. Hafið það með allskonar forréttum, feitari fiskréttum, skeldýrum og ljósu fuglakjöti.
Verð kr. 2.099.- Frábær kaup.