Adobe Reserva Syrah 2017

Víngarðurinn segir;

Neytendur ættu núna væntanlega að hafa tekið eftir hinum nýju umbúðum á Adobe-línunni hjá Emiliana-víngerðinni. Um daginn var ég með til umfjöllunar það sem mér þykir vera besta vínið (amk hingað til) af þeim vínum, Chardonnay 2018 (****), en þessi Syrah er nánast í sama gæðaflokki, munar bara tveimur punktum eða svo. Og allt eru þetta lífræn og nokkuð heilbrigð vín sem ættu ekki að vefjast fyrir neinum að smakka.
Þessi Syrah er upprunninn í Miðdal (Valle Centrale) í Chile og hefur meðaldjúpan lit af svörtum kirsuberjum. Það er svo rétt ríflega meðalopið með ilm sem minnir á rauð og krydduð ber, áfengislegin kirsuber, lakkrís, sólber, bláberjasultu, kanil og steinefni sem minna á leirkennt ryk eða ösku. Það er svo rétt ríflega meðalbragðmikið, ágætlega þurrt með góða sýru og keim af dökkum berjum, rauðum sultuðum berjum, kirsuberjum, lakkrís, sólber, kryddi og rykugum steinefnum. Þetta er fínast rauðvín en dálítið gróft og ungæðislegt þótt ég sé ekkert viss um að það verði betra með meiri þroska. Þetta er bara eitt af þessum neytendavænu og vel gerðu hversdagsvínum sem gott er að hafa á þriðjudögum með bragðmeiri kjötréttum.

Verð kr. 2.099.- Mjög góð kaup.

Share Post