Flor de Crasto 2017

Víngarðurinn segir;

Ég er virkilega ánægður með vínin frá Quinta do Crasto í Duoro-dalnum í Portúgal og síðast þegar þetta vín var dæmt hér var það árgangurinn 2015 sem fékk sömu einkunn, enda gæðin nokkuð stöðug hjá þessari víngerð. Það eru þrúgurnar Tinta Roriz, Touriga Franca og Touriga National sem blandaðar eru saman eftir kúnstarinnar reglum en það er ágætt að minna á að þrúgan Tinta Roriz er sama þrúga og Tempranillo handan landamæranna á Spáni.
Það hefur djúpan rauðfjólubláan lit og ríflega meðalopna angan af sultuðum bláberjum, Mon Chéri-molum, heyrúllum, lakkrískonfekti, sveskjum, austurlenskum kryddum, plómum og Madeira. Það hefur sætan undirtón en kryddaða yfirtóna og er vel dæmigert fyrir nútímaleg rauðvín frá Douro.
Það er sýruríkt, þétt og þurrt í munni með töluverð og mjúk tannín. Það endist vel og jafnvægið milli ávaxtar og byggingarinnar er einsog vænta má ákaflega gott. Þarna má greina sultuð krækiber, sultuð bláber, sprittuð kirsuber, dökkt súkkulaði, plómur, lakkrískonfekt og kínverskt fimm-krydd. Breiðir vel úr sér og hangir lengi inni. Þetta er verulega gott rauðvín og þarna fá menn mikið fyrir peningana, meira en alla jafna í Ribera del Duero sem auðvelt er að bera samanvið. Hafið með allskyns bragðmeiri kjötréttum, hægelduðum pottréttum, grillmat og nautakjöti.

Verð kr. 2.399.- Frábær kaup.

Share Post