Hess Select Pinot Noir 2016

 

Víngarðurinn segir;

Pinot Noir er dálítið dyntótt þrúga og helstu vínsnobbarar þessa heims vilja meina að hún gefi hvergi af sér góð vín nema í Búrgúnd og vilja jafnvel þrengja þá skilgreiningu niður í einstaka bletti í þeirri sveit. En einsog með allar góðar þrúgur þá er Pinot Noir ræktuð um gervallan heim og auðvitað með misjöfnum árangri, en þetta vín hér er upprunið á Central Coast-svæðinu í Kaliforníu. Það hefir meðaldjúpan, rúbínrauðan lit og dæmigerðan ilm af kalifornískum Pinot Noir þar sem finna má jarðarber, jarðarberjasultu, heyrúllur, málm, rykug steinefni og sælgætislega tóna sem minna á kirsuberjagospilluna gömlu góðu. Þetta er vissulega sætkennd og aðlaðandi angan enda er vínið með sólþroskaðan og sætan undirtón þegar það er smakkað, en góð sýra heldur þessu víni vel á lofti og það er blessunarlega ekki yfir-extrakterað einsog mörg Pinot Noir vín voru á sínum tíma og tannín eru flauelsmjúk. Þarna má svo finna jarðarber, jarðarberjasultu, kóla, kirsuber, steinefni og ögn af grænni papriku. Vel gert og bara býsna matarvænt rauðvín, létt og elegant. Hafið með dekkra fuglakjöti, ljósrauðu kjöti einsog kálfi og villibráð.

Verð kr. 2.999.- Góð kaup.

Share Post