Asísk núðlusúpa með risarækjum

Uppskrift: Linda Ben

Hráefni:

400 g risarækjur

1 msk steikingar olía

Salt og pipar

½ laukur

1 paprika

3 hvítlauksrif

2 tsk rifið engifer

2 tsk karrý mauk

1 dós kókosmjólk

1 líter vatn

3 tsk Oscar grænmetiskraftur

2 bent Blue Dragon eggjanúðlur

Lime

Kóríander

Aðferð:

Kryddið rækjurnar með salti og pipar eftir smekk, setjið olíu á pönnu og steikið rækjurnar á meðal háum hita þar til þær eru orðnar allar bleikar. Takið rækjurnar af pönnunni og geymið.

Skerið laukinn og paprikuna niður og steikið upp úr olíu. Bætið saxaða hvítlauknum og engiferinu út á og steikið létt, því næst bætiði karrý maukinu út á.

Hellið kókosmjólkinni út á og notið töfrasprota til að mauka grænmetið. Bætið vatni og grænmetiskrafti út á og hrærið öllu saman. Látið suðuna koma upp og smakkið til með salti og pipar. Leyfið súpunni að sjóða saman í u.þ.b. 5-10 mín. Bætið því næst rækjunum út í súpuna ásamt núðlunum. Leyfið súpunni að sjóða þar til núðlurnar eru tilbúnar. Berið fram með lime og fersku kóríander.

Vinó mælir með Willm Pinot Gris Reserve með þessum rétt.