Vínklúbbur fyrir þau sem hafa áhuga á víni

Ballin´ Carrots

 

Uppskrift:

50ml Jim Beam Devil’s Cut toppað með heimagerðu “carrot cream soda”

Ferskur gulrótasafi

Íslenskt skyr

Smá rabbabari og mysa til að balensera sætuna í gulrótunum

Íslenskt birki síróp

Klípa af íslensku sjávarsalti

Innblástur:

Mig langaði að gera einfalt twist á langvinsælast whiskey drykk í heiminum: Whiskey highball með alíslenskum hráefnum í nýjum búning.

Höfundur: Jónas Heiðarr barþjónn á Apotekinu lenti í 4-6. sæti Kokteilkeppni 2019 með þessum drykk!

Ribeye með parmesansósu og bökuðu grænmeti

 

Fyrir 2

 

Hráefni:

Ribeye, 2x 250 g

Kartöflur, 300 g

Gulrætur, 150 g

Sprotakál eða spergilkál, 200 g

Perlulaukur, 8 stk

Smjör, 50 g

Hvítlaukur, 3 rif

Hveiti, 2 msk / 15 g

Nautasoð, 250 ml

Rjómaostur, 30 g

Rjómi, 125 ml

Parmesan ostur rifinn, 12 g

Herbs de Provence, 1 tsk

Aðferð:

 • Takið kjötið úr ísskápnum um 1 klst áður en á að elda það.
 • Stillið ofn á 180 °C með blæstri.
 • Skerið kartöflur í bita, gulrætur í bita/tvennt (fer eftir stærð og þykkt) og skrælið perlulaukana. Veltið upp úr olíu og salti og dreifið yfir ofnplötu með bökunarpappír. Bakið í miðjum ofni í 35-40 mín eða þar til kartöflurnar eru fallega gylltar og stökkar að utan en mjúkar að innan. Hrærið í þegar tíminn er hálfnaður.
 • Bræðið smjör í potti við miðlungshita. Pressið hvítlauksrif út í smjörið hrærið í þar til hvítlaukurinn er farinn að ilma, sirka 2 mín. Bætið hveiti út í pottinn og hrærið stanslaust í sirka 2-3 mín þar til hveitibolla hefur myndast. Pískið nautasoð hægt og rólega saman við hveitibolluna í pottinum og náið upp vægri suðu. Hrærið rjóma, parmesan, rjómaosti og Herbs de Provence saman við. Látið malla við vægan hita og smakið til með salti og ríflegu magni af svörtum pipar. Ef sósan þykkist of mikið má bæta við ögn af rjóma.
 • Setjið vatn í pott með svolitlu salti og náið upp suðu. Skerið endana af sprotakálinu. Skerið spergilkál í bita ef það er notað í stað sprotakáls. Sjóðið í um 3 mín eða þar til kálið er mjúkt undir tönn en þó með smá biti.
 • Nuddið kjötið með smá olíu og ríflegu magni af salti og svolitlum pipar.
 • Hitið olíu á pönnu við meðalháan hita og steikið steikurnar í 3-4 mín á hvorri hlið eða þar til kjötið hefur náð 55 °C kjarnhita fyrir medium rare. Þá er gott að notast við kjöthitamæli. Leyfið kjötinu að hvíla í um 5 mín áður en það er borið fram.

Vínó mælir með: Cune Crianza með þessum rétt.

Uppskrift og myndir:  Matur & Myndir

Októberfest – alvöru hátíð með alvöru bjór

Um þessar mundir er hin árlega Októberhátíð haldin hátíðleg í München, stærstu borg Bæheims í Suður-Þýskalandi. Þar sem maður er jú manns gaman – ekki síst ef nógu margir koma saman! – og borðin á Oktoberfest svigna undan líterskrúsum af ísköldum bjór, þarf kannski ekki að útlista nánar út á hvað hátíðin gengur. Hvað þarf maður meira en góðan félagsskap, góða stemningu og góðan bjór? Mögulega ekki neitt, en það breytir því ekki að þessi fjölmennasta útihátíð sem fyrirfinnst í víðri veröld á sér mikla og merka sögu og það er sérlega fróðlegt að skoða allar hefðirnar sem hátíðin byggir á.

 


Prinsinn sem bauð í partý

En byrjum aðeins á að skoða hver uppruni þessa mikla mannamóts er. Eins og tilfellið er um svo margar aðrar skemmtilegar hefðir hófst þetta allt saman endur fyrir löngu á góðu partýi – reyndar svo góðu að fólk hafði á orði að þetta yrði framvegis árviss viðburður. Allt hófst þetta árið 1810 þegar hinn bráðhressi krónprins Ludwig af Saxe-Hildburghausen ákvað að ganga að eiga unnustu sína, er Teresa hét. Frekar en að halda uppstrílað og brakandi þurrt hefðarbrúðkaup sem í þá daga þótti við hæfi, ákvað Ludwig að halda bara heljarinnar partý og bjóða hverjum þeim sem vettlingi gæti valdið til veislunnar. 

 

 

Krúsir, kappreiðar og kræsingar

Almenningurinn lét ekki segja sér það tvisvar heldur fjölmennti, enda krónprinsinn vinsæll maður með afbrigðum, og úr varð allsherjar fjöldasamkoma með úrvalsbjór á hvers manns krús, kappreiðum og hvers konar hnossgæti frá bændum í héraðinu á boðstólum svo borð svignuðu. Herlegheitin urðu því skiljanlega að árvissum atburði. Þar er svo á árunum uppúr 1870 að mikil tímamót eiga sér stað í sögu Októberfest þegar einhver stuðboltinn ákveður að bæta líterskrúsum af bjór í stemninguna. Eins og gefur að skilja var þessi viðbót við hefðina síst til að slá á gleðina og restin – eins og þar stendur – er drjúgur kafli í bjórsögunni.

 

 

Bruggaður að vori, drukkinn að hausti

Októberfestbjórinn var hefðinni samkvæmt bruggaður í marsmánuði, rétt áður en veður varð heldur heitt til að brugga bjór án þess að hætta væri á að hann skemmdist, eða varð bakteríusýkingu að bráð. Bruggmeistarar Bæheims afréðu á sínum tíma að gíra áfengisprósentuna upp að 6% af rúmmáli til að auðvelda geymslu bjórsins og geymdu bjórinn svo á ámum í köldum geymslum svo hægt væri að svala sér á honum þegar vinnandi menn og konur þurftu hressingar við um hábjargræðistímann þar í sveitinni. 

 

Sækið bjórinn – svellkaldan!

Þessi bjóreign kom sér einkar vel þegar áðurnefndur krónprins efndi til brullaups með tilheyrandi mannfagnaði þann 12. október 1810; menn voru ekki lengi að sækja svellkaldar bjórbirgðirnar sem höfðu beðið í kuldanum allt sumarið. Ekki spillir að Märzen-bjór er sérlega aðgengilegur til drykkju, jafnvel í ríflegu magni svo sem krúsirnar á Októberfest hafa óhjákvæmilega í för með sér – góðu heilli. Fyrir bragðið kemur kannski ekki á óvart að ár hvert spæna Bæverjar í sig 7,5 milljónir lítra af bjór. 

 

 

Hreint ekki sama hvernig bjórinn er!

Það kemur ekki á óvart að uppskriftin að þessum líflega mannfagnaði hafi verið afrituð víða um heim enda fátt sem jafnast á við dillandi fjöldasöng á Októberfest. Hitt er svo annað mál, að þar sem uppruninn býr, í München-borg, tekur fólk  hefðunum alvarlega og þar sem fastmótað hvers lags bjór má kallast Októberfest-bjór. Það er nefnilega ekki bara hvaða bjór sem er. Bjórstílinn sem flestir Októberfest-bjórarnir tilheyra nefnist Märzen, svo sem framar greinir. Þess má svo í framhaldinu geta að Märzen-bjór er amberlitaður lagerbjór, með ríkulegum en um leið fáguðum maltkeim, örlítið ristuðum, og hæfilega þurru eftirbragði (í kjölfar sætra upphafstóna) sem kallar einhvern veginn alltaf á aðra krús. Stórmerkilegt, alveg.

 

 

Löwenbräu fyrir landann

Og það er ekki allt, góðir hálsar – aðeins sex tegundir bjórs mega í raun og sann kalla sig “Oktoberfestbier” og eru þeir allir bruggaðir innan marka Münchenborgar. Þar á meðal er sá ástsæli Löwenbräu sem fylgt hefur okkur Íslendingum allt frá 1. mars 1989 er bjór var loks gerður löglegur fyrir Íslendinga, og bar í kjölfarið höfuð, herðar, hné og tær yfir aðrar bjórtegundir hér á landi hvað vinsældir varðar, með 36% markaðshlutdeild. Hinir bjórarnir fimm eru  Augustiner, Hacker-Pschorr, Hofbräuhaus, Spaten og Paulaner. Hér á landi er reglunum um nafnbótina „Októberfestbjór“ ekki fylgt af sömu festunni út í æsar eins og Þjóðverjinn vill hafa það, og þar af leiðandi slæðast ýmsar gerðir bjórs með í Októberfest-rennslið í Vínbúðunum hérlendis, þó það séu í reynd bara hinar og þessar gerðir haustbjórs. Þess má einnig geta að Löwenbräu Oktoberfestbier hefur verið mest seldi bjórinn á umræddu októbertímabili, 21.september – 31.október nánar tiltekið, hin síðustu ár og er þar af leiðandi eini slíki bjórinn sem fæst í öllum verslunum Vínbúðanna.

 

 

Einn kaldan með hvítpylsu og kringlu, takk

Það er því að ýmsu að huga með ölið þegar góða Októberfest gjöra skal, og mest um vert að bjórinn sé eins og hann á að vera. Landinn þarf þó ekki að hafa áhyggjur af því að Októberfest-eftirlitið frá Bæheimi sé komið til að taka mannfagnaðinn út og aðalatriðið er að hafa gaman saman, eins og gert hefur verið í München í Suður-Þýskalandi allt frá því Ludwig af Saxe-Hildburghausen ákvað að bjóða í partý. Verðið ykkur úti um Weisswurst, Pretzel með sinnepsdýfu og alvöru Októberfest bjór. Bjóðið svo partý! 

Prost! og njótið vel og skynsamlega.

Sturluson

 

Uppskrift:

6 cl Jim Beam White

2.25 cl sítrónusafi

2.25 síróp

1 jarðaber úr garðinum

Snorri bjór fyrir toppinn

Heimaræktað timjan

Innblástur:

Ég vildi nota hráefni sem ég gat fundið í garðinum mínum og ég vildi nota íslenskan bjór þar sem mikil bjórmenning ríkir á Íslandi. Einnig vildi ég gera einfaldan drykk með fáum hráefnum til þess að viskíið nái að skína sínu skærasta. 

Höfundur: Jakob Eggertsson barþjónn á Fjallkonunni lenti í 3. sæti Kokteilkeppni 2019 með þessum drykk!

Rjómalagað risarækju linguine

 

Fyrir 4

 

Hráefni:

Risarækjur, 400 g

Beikon, 8 sneiðar

Linguine, 320 g / Eða spaghetti, jafnvel tagliatelle

Sveppir, 150 g

Laukur, 100 g

Hvítlauksrif, 4 stk

Hvítvín, 80 ml

Rjómi, 250 ml

Fiskikraftur, 1 teningur

Parmesan, 30 g + meira yfir

Sítróna, 1 stk

Fersk steinselja, 10 g

Klettasalat, 50 g

Smátómatar, 150 g

Sósujafnari, ef þarf

Aðferð:

 • Stillið ofn á 180 °C blástur.
 • Raðið beikoni á ofnplötu með bökunarpappír og bakið í miðjum ofni í 12-14 mín (fylgist með svo beikonið brenni ekki við).
 • Færið beikonið á disk með eldhúspappír og þerrið fituna af. Leyfið beikoninu að kólna og grófsaxið það svo.
 • Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakka.
 • Saxið lauk og rífið eða skerið sveppi í bita. Hitið olíu á stórri pönnu og steikið  sveppina þar til þeir eru farnir að brúnast aðeins.
 • Bætið lauk út á pönnuna og steikið þar til laukurinn er orðinn glær og mjúkur. Pressið hvítlauk út á pönnuna og steikið í 1-2 mín. Saltið aðeins.
 • Bætið hvítvíni út á pönnuna og látið sjóða niður um helming. Bætið rjóma út á pönnuna, rífið parmesan ost og  hrærið saman við rjómann ásamt fiskikrafti.
 • Bætið rækjunum út á pönnuna og látið sósuna malla í nokkrar mín þar til rækjurnar eru fulleldaðar og sósan búin að þykkjast svolítið. Notið sósujafnara ef þarf. Smakkið til með salti og pipar.
 • Saxið steinselju smátt og rífið börkinn af ½ sítrónu.
 • Blandið pasta, steinselju, sítrónuberki og beikoni saman við rækjurnar og sósuna á pönnunni.
 • Rífið veglegt magn af parmesan osti yfir og berið fram með klettasalati og smátómötum.

Vínó mælir með: Saint Clair Sauvignon Blanc með þessum rétt.

Uppskrift og myndir:  Matur & Myndir

Í hverjum mánuði koma ný vín til reynslusölu í Vínbúðunum í Kringlunni, Heiðrúni, Skútuvogi og Hafnarfirði. Fyrir ykkur sem hafið gaman að því að breyta til og prófa ný vín mælum við með að þið prófið þessi neðan greindu vín, en þau voru einmitt að byrja í reynslusölu Vínbúðanna í byrjun mánaðarins.

 

 

Pagos Del Galir Godello

Bragðlýsing:  Ljóssítrónugult. Meðalfylling, ósætt, fersk sýra, höfugt. Stikilsber, ferskja, græn epli, hvít blóm.

Styrkleiki: 13,5% vol

Land: Spánn

Hérað: Galisía

Framleiðandi: Virxen de Galir

Þrúga: Godello

Verð: 2.199 kr.

Passar með: Hentar vel fiski, grænmetisréttum og ljósu fuglakjöti.

 

 

Geyser Peak Cabernet Sauvignon

Bragðlýsing:  Kirsuberjarautt. Þétt fylling, ósætt, mild sýra, miðlungstannín. Sólber, skógarber, vanilla, sólbakað.

Styrkleiki: 14% vol

Land: Bandaríkin

Framleiðandi: Geyser Peak Winery

Þrúga: Cabernet Sauvignon

Verð: 2.199 kr.

Passar með: Hér er um að ræða kröftugt vín, með þéttu berjabragði og nokkuð tannískt. Passar vel með nautakjöti, villibráð, pottréttum og hörðum ostum.

 

 

Hardys Nottage Hill Cabernet Sauvignon Shiraz

Bragðlýsing:  Dökkkirsuberjarautt. Þétt meðalfylling, ósætt, fersk sýra, miðlungstannín. Dökk ber, jörð, minta.

Styrkleiki: 14% vol

Land: Ástralía

Framleiðandi: Thomas Hardy & Sons

Þrúga: Cabernet Sauvignon, Syrah

Verð: 2.199 kr.

Passar með: Þetta vín hentar best með flestum mat. Það er nokkuð bragðmikið og gott með rauðu kjöti og ostum.

 

 

Geyser Peak Zinfandel

Bragðlýsing:  Rúbínrautt. Meðalfylling, sætuvottur, mild sýra, lítil tannín. Sultuð plóma, brómber, vanilla.

Styrkleiki: 13,5% vol

Land: Bandaríkin

Framleiðandi: Geyser Peak Winery

Þrúga: Zinfandel

Verð: 2.199 kr.

Passar með: Þetta vín hentar best með flestum mat. Það er nokkuð bragðmikið og gott með rauðu kjöti og ostum.

Gluggaveður

 

Uppskrift:

45 ml Jim Beam White

30 ml Brennivín infusað vanillu skyri

20 ml sítrónu safi

20 ml sykur síróp

Toppað með Jim Beam Honey froðu

Innblástur:

Ísland er eitt af fáum löndum þar sem gluggaveður er sagt oft enda virkilega fallegt land en getur verið ískalt úti, eins og með drykkinn sjálfan, fallegur en ískaldur.

Höfundur: Patrick Örn Hansen barþjónn á Public House lenti í 2. sæti í Kokteilkeppni 2019 með þessum drykk!

Sous vide ungnauta framfille með koníaks- grænpiparsósu

 

Fyrir 2

 

Hráefni:

Ungnauta framfille, 2x 250 g

Rósmarín, 1 grein

Hvítlauksrif, 3 stk

Kartöflur, 500 g

Borðsalt, 30 g

Smjör, 30 g

Skalottlaukur, 1 stk

Rjómi, 250 ml

Nautakraftur duft, 1.5 tsk

Græn piparkorn í kryddlegi, 2 msk

Koníak, 25 ml

Salatblanda, 30 g

Smátómatar, 60 g

Fetaostur, 25 g

 

Aðferð:

 • Stillið sous vide tækið á 53 °C fyrir medium rare eldun. Saltið og piprið kjötið rausnarlega og kremjið hvítlauksrifin lauslega. Setjið kjötið, hvítlaukinn og rósmaríngreinina  í poka sem hægt er að loka og lofttæma. Lofttæmið pokann vel og setjið í vatnsbað í 1 klst eða upp að 2 klst.
 • Skerið kartöflur í munnbitastærðir. Setjið 1 líter af vatni ásamt 30 g af borðsalti í pott og náið upp suðu. Bætið kartöflum út í pottinn og sjóðið í 8 mín. Sigtið vatnið frá kartöflunum og dreifið þeim yfir hreint eldhússtykki þar sem þær hvíla í 2-3 mín.
 • Bræðið smjörið í sama potti og kartöflurnar voru soðnar og veltið kartöflunum svo varlega upp úr smjörinu þar til hver biti er vel hulinn smjöri. Dreifið kartöflunum yfir bökunarpappírsklædda ofnplötu og bakið í miðjum ofni í 30-40 mín eða þar til þær eru orðnar gylltar og stökkar að utan en mjúkar að innan. Hrærið í þegar tíminn er hálfnaður.
 • Saxið skalottlauk mjög smátt. Hitið um 1 tsk af olíu í litlum potti við vægan hita og steikið skalottlaukinn þar til hann er glær og mjúkur. Bætið Rjóma, grænum piparkornum (án vökvans) og nautakrafti út í pottinn og látið malla rólega í um 20 mín eða þar til rjóminn er búinn að þykkjast svolítið.
 • Fjarlægið kjötið úr pokanum og þerrið það vel á öllum hliðum. Hellið vökvanum sem hefur myndast í pokanum út í sósuna ásamt koníakinu. Hækkið hitann á sósunni og látið krauma þar til hún hefur þykkst passlega. Hrærið nokkrum dropum af sósulit saman við ef vill og smakkið til með salti ef þarf.
 • Hitið pönnu við háan hita og kveikið á viftunni við eldavélina. Þegar pannan er orðin sjóðheit, bætið þá 1 msk olíu og smjörklípu út á pönnuna. Setjið kjötið á pönnuna og brúnið í um 30 sek á hvorri hlið.
 • Sneiðið tómata og rífið salat eftir smekk. Setjið í skál með fetaosti og blandið vel saman.

Vínó mælir með: Adobe Reserva Syrah með þessum rétt.

Uppskrift og myndir:  Matur & Myndir

Ramon Roqueta Tina 12 Macabeo-Chardonnay 2018

Vinotek segir;

„Ramon Roqueta-vínin ættu að vera lesendum síðunnar ágætlega kunnuð enda hafa rauðvínin þeirra verið í all nokkru uppáhaldi hjá okkur. Það er hins vegar ekki síður ástæða til að gefa  hvítvíninu Ramon Roqueta Tina 12 gaum.  Þetta er blanda úr tveimur þrúgum, annars vegar frönsku Búrgundarþrúgunni Chardonna og hins vegar Macabeo sem einnig er þekkt sem Viura á Spáni. Vínið er fölgult á lit, þægileg angan af límónu og þroskuðu ferskjum og ástaraldini, ferskt og þægilegt í munni, míneralískt með mildri seltu í lokin. 1.899 krónur. Frábær kaup. Sjarmerandi vín sem gefur mikið fyrir peninginn. Vín á pallinn, fordrykkinn eða með sushi.“

Laurent Miquel Albarino 2016

Vinotek segir;

„Albarino-þrúguna tengja flestir við Galisíu í norðausturhluta Spánar og norðurhluta Portúgal. Það bendir þó margt til að upphaflega hafi þessa þrúgi borist þangað frá Frakklandi með pílagrímum  frá Cluny er gengu Jakobsveginn til borgarinnar Santiago de Compostela. 2.499 krónur. Mjög góð kaup. Ferskt og þægilegt sem fordrykkur eða með léttum sjávarréttum. Sérpöntun. “