Októberfest – alvöru hátíð með alvöru bjór

Um þessar mundir er hin árlega Októberhátíð haldin hátíðleg í München, stærstu borg Bæheims í Suður-Þýskalandi. Þar sem maður er jú manns gaman – ekki síst ef nógu margir koma saman! – og borðin á Oktoberfest svigna undan líterskrúsum af ísköldum bjór, þarf kannski ekki að útlista nánar út á hvað hátíðin gengur. Hvað þarf maður meira en góðan félagsskap, góða stemningu og góðan bjór? Mögulega ekki neitt, en það breytir því ekki að þessi fjölmennasta útihátíð sem fyrirfinnst í víðri veröld á sér mikla og merka sögu og það er sérlega fróðlegt að skoða allar hefðirnar sem hátíðin byggir á.

 


Prinsinn sem bauð í partý

En byrjum aðeins á að skoða hver uppruni þessa mikla mannamóts er. Eins og tilfellið er um svo margar aðrar skemmtilegar hefðir hófst þetta allt saman endur fyrir löngu á góðu partýi – reyndar svo góðu að fólk hafði á orði að þetta yrði framvegis árviss viðburður. Allt hófst þetta árið 1810 þegar hinn bráðhressi krónprins Ludwig af Saxe-Hildburghausen ákvað að ganga að eiga unnustu sína, er Teresa hét. Frekar en að halda uppstrílað og brakandi þurrt hefðarbrúðkaup sem í þá daga þótti við hæfi, ákvað Ludwig að halda bara heljarinnar partý og bjóða hverjum þeim sem vettlingi gæti valdið til veislunnar. 

 

 

Krúsir, kappreiðar og kræsingar

Almenningurinn lét ekki segja sér það tvisvar heldur fjölmennti, enda krónprinsinn vinsæll maður með afbrigðum, og úr varð allsherjar fjöldasamkoma með úrvalsbjór á hvers manns krús, kappreiðum og hvers konar hnossgæti frá bændum í héraðinu á boðstólum svo borð svignuðu. Herlegheitin urðu því skiljanlega að árvissum atburði. Þar er svo á árunum uppúr 1870 að mikil tímamót eiga sér stað í sögu Októberfest þegar einhver stuðboltinn ákveður að bæta líterskrúsum af bjór í stemninguna. Eins og gefur að skilja var þessi viðbót við hefðina síst til að slá á gleðina og restin – eins og þar stendur – er drjúgur kafli í bjórsögunni.

 

 

Bruggaður að vori, drukkinn að hausti

Októberfestbjórinn var hefðinni samkvæmt bruggaður í marsmánuði, rétt áður en veður varð heldur heitt til að brugga bjór án þess að hætta væri á að hann skemmdist, eða varð bakteríusýkingu að bráð. Bruggmeistarar Bæheims afréðu á sínum tíma að gíra áfengisprósentuna upp að 6% af rúmmáli til að auðvelda geymslu bjórsins og geymdu bjórinn svo á ámum í köldum geymslum svo hægt væri að svala sér á honum þegar vinnandi menn og konur þurftu hressingar við um hábjargræðistímann þar í sveitinni. 

 

Sækið bjórinn – svellkaldan!

Þessi bjóreign kom sér einkar vel þegar áðurnefndur krónprins efndi til brullaups með tilheyrandi mannfagnaði þann 12. október 1810; menn voru ekki lengi að sækja svellkaldar bjórbirgðirnar sem höfðu beðið í kuldanum allt sumarið. Ekki spillir að Märzen-bjór er sérlega aðgengilegur til drykkju, jafnvel í ríflegu magni svo sem krúsirnar á Októberfest hafa óhjákvæmilega í för með sér – góðu heilli. Fyrir bragðið kemur kannski ekki á óvart að ár hvert spæna Bæverjar í sig 7,5 milljónir lítra af bjór. 

 

 

Hreint ekki sama hvernig bjórinn er!

Það kemur ekki á óvart að uppskriftin að þessum líflega mannfagnaði hafi verið afrituð víða um heim enda fátt sem jafnast á við dillandi fjöldasöng á Októberfest. Hitt er svo annað mál, að þar sem uppruninn býr, í München-borg, tekur fólk  hefðunum alvarlega og þar sem fastmótað hvers lags bjór má kallast Októberfest-bjór. Það er nefnilega ekki bara hvaða bjór sem er. Bjórstílinn sem flestir Októberfest-bjórarnir tilheyra nefnist Märzen, svo sem framar greinir. Þess má svo í framhaldinu geta að Märzen-bjór er amberlitaður lagerbjór, með ríkulegum en um leið fáguðum maltkeim, örlítið ristuðum, og hæfilega þurru eftirbragði (í kjölfar sætra upphafstóna) sem kallar einhvern veginn alltaf á aðra krús. Stórmerkilegt, alveg.

 

 

Löwenbräu fyrir landann

Og það er ekki allt, góðir hálsar – aðeins sex tegundir bjórs mega í raun og sann kalla sig “Oktoberfestbier” og eru þeir allir bruggaðir innan marka Münchenborgar. Þar á meðal er sá ástsæli Löwenbräu sem fylgt hefur okkur Íslendingum allt frá 1. mars 1989 er bjór var loks gerður löglegur fyrir Íslendinga, og bar í kjölfarið höfuð, herðar, hné og tær yfir aðrar bjórtegundir hér á landi hvað vinsældir varðar, með 36% markaðshlutdeild. Hinir bjórarnir fimm eru  Augustiner, Hacker-Pschorr, Hofbräuhaus, Spaten og Paulaner. Hér á landi er reglunum um nafnbótina „Októberfestbjór“ ekki fylgt af sömu festunni út í æsar eins og Þjóðverjinn vill hafa það, og þar af leiðandi slæðast ýmsar gerðir bjórs með í Októberfest-rennslið í Vínbúðunum hérlendis, þó það séu í reynd bara hinar og þessar gerðir haustbjórs. Þess má einnig geta að Löwenbräu Oktoberfestbier hefur verið mest seldi bjórinn á umræddu októbertímabili, 21.september – 31.október nánar tiltekið, hin síðustu ár og er þar af leiðandi eini slíki bjórinn sem fæst í öllum verslunum Vínbúðanna.

 

 

Einn kaldan með hvítpylsu og kringlu, takk

Það er því að ýmsu að huga með ölið þegar góða Októberfest gjöra skal, og mest um vert að bjórinn sé eins og hann á að vera. Landinn þarf þó ekki að hafa áhyggjur af því að Októberfest-eftirlitið frá Bæheimi sé komið til að taka mannfagnaðinn út og aðalatriðið er að hafa gaman saman, eins og gert hefur verið í München í Suður-Þýskalandi allt frá því Ludwig af Saxe-Hildburghausen ákvað að bjóða í partý. Verðið ykkur úti um Weisswurst, Pretzel með sinnepsdýfu og alvöru Októberfest bjór. Bjóðið svo partý! 

Prost! og njótið vel og skynsamlega.

Share Post