Hörkugóð vín frá hjarta Frakklands

Það er kunnara en frá þurfi að segja að um Frakkland þvert og endilangt er vínviður ræktaður og öndvegisvín unnin úr honum. Stundum eru heilu héruðin þekkt fyrir framúrskarandi vín, stundum er ræktunin bundin smærri svæðum. Eitt þeirra er í nágrenni miðaldaþorpsins Sancerre í miðju Frakklands, og þá meinum við miðju því Sancerre er að finna í héraðinu Centre. Ekki nóg með það; Sancerre er þess utan nánast í blámiðju Frakklands eins og það leggur sig. Vínin þaðan eru rómuð fyrir gæði sín og meðal kunnra framleiðenda þar í sveit er vínhús Henri Bourgeois.

 

Ris, fall og ris víngerðar í Sancerre

Vínrækt hefur verið við lýði í Sancerre frá alda öðli, eins og annars staðar í Frakklandi, og rétt eins og í nágrannahéraðinu Bourgogne hefur Pinot Noir verið þar ráðandi þrúga gegnum tíðina. Vínrækt í héraði hrundi seint á 19. öld eins og annars staðar í Frakklandi, þegar phylloxera – rótarlúsin skelfilega – lagði vínviði víðast hvar í algera rúst. Hægt og rólega tókst að endurreisa ræktunina og þá að langmestu leyti með Sauvignon Blanc þrúgum. Í seinni er þó líka að finna skika hér og hvar þar sem Pinot Noir hefur verið ræktuð á ný, og vínhús Henri Bourgeois ræktar bæði afbrigðin, með framúrskarandi árangri.

Einungis besti hluti uppskerunnar

Þegar að er gáð er svæðið í kringum Sancerre einstaklega hentugt til vínræktar. Þorpið sjálft – sem á sér sögu sem nær aftur til miðalda, eins og fyrr segir – stendur efst á lítilli hæð og í hlíðunum allt um kring er að finna vínekrur. Þar í hallanum nýtur bæði sólarljóss og hita svo þrúgurnar nái fullum þroska, um leið og svalt loft flæðir niður í dalverpin neðan við hlíðarnar. Við þessar aðstæður hefur Bourgeois-ættin ræktað vín um langan aldur en fyrirtækinu óx fyrst almennilega fiskur um hrygg þegar Henri Bourgeois tók við ræktuninni í kringum 1950. Hann keypti nokkra skika til viðbótar, stækkaði ræktunarsvæðið og fann leiðir til að flétta saman þrúgur mismunandi svæða í framúrskarandi vín, með því að nýta aðeins besta hluta uppskerunnar hverju sinni og af hverjum skika. Kunnáttan er því heldur betur til staðar því nú um stundir er það 10. kynslóðin af Bourgeois-ættinni sem stendur vaktina við víngerðina. Þar fara þeir fremstir í flokki, Arnaud, Lionel, og Jean-Christophe Bourgeois.

Fyrirtaks ræktunarsvæði, frábær vín

Það má með sanni segja að Bourgeois-ættin sé frumherji á Sancerre-svæðinu þegar kemur að ræktun vínviðar með tilliti til ræktunarsvæðisins. Þannig hefur vínhúsinu tekist að laða fram það besta við báðar ræktunarþrúgurnar, hina hvítu Sauvignon Blanc og hina rauðu Pinot Noir.

Sauvignon Blanc þrúgan er flestum unnendum hvítvíns auðþekkjanlegt sakir hinnar leikandi fersku sýrni sem einkennir vín sem unnin eru úr henni. Í Sancerre getur liturinn á hvítvíninu verið allt frá platínugylltu yfir í strágult og eru í því bragðtónar sem eru í senn blómlegir og ávaxtaríkir. Rætur þrúgunnar eru svo nógu sterkar og harðar af sér til að ná djúpt í jarðveginn og ljá víninu fyrir bragðið steinefnakeim í grunninn.

Hvað Pinot Noir áhrærir þá er það öndvegisþrúga sem þrífst einstaklega vel í norðlægari hlutum Frakklands. Vínber þessarar þrúgu samanstanda af dökku – nánast svörtu – hýði og svo safa sem er aftur á móti hvítur að kalla. Þrúgan er einkar móttækileg fyrir margvíslegum áhrifum nærumhverfisins og skilar því töfrum Sancerre alla leið í flöskuna með stæl. Að lokinni vandlega stýrðri meskingu innihalda rauðvínin frá Henri Bourgeois hárréttan skammt af tannínum og hárréttan litatón, sem er djúprauður rúbín.

Jarðvegurinn undir hinum 72 hekturum sem Henri Bourgeois hefur yfir að ráða samanstendur af sandsteinsríkum leir sem ljær þrúgunum ávaxtaríka tóna, Kimmeridge-mulningi sem samanstendur mestanpartinn af steingerðum leifum af sjávarskordýrum frá Júratímabilinu og ljá víninu tónar af suðrænum ávöxtum, og loks eldtinna (e.flint) sem leggur til bragðtón sem minnir á ristun og reyk. Veðurfarið, jarðvegurinn og ræktunarfærni þeirra Arnaud, Lionel, og Jean-Christophe Bourgeois gerir það að verkum að rauð- og hvítvínin frá vínhúsinu eru jafn eftirsótt og þau eru ljúffeng.

Kjörið að kíkja við í heimsókn

Fyrir alla sanna sælkera sem eru á leiðinni til Frakklands er ómissandi að heimsækja alvöru víngerð og fá að skoða sig um. Ekki einasta er vínhús Henri Bourgeois aðeins í um 2ja tíma fjarlægð frá París, heldur fagna þeir Bourgrois-bræður og starfsfólk þeirra heimsóknum á svæðið. Ein nýjung er í boði fyrir gesti, og þar er ganga um vínekrurnar með leiðsögn, þar sem hópurinn endar á því að tylla sér í lautarferð og gæða sér á kræsingum úr héraðinu ásamt vel pöruðum vínum frá Henri Bourgeois. Það hljómar um það vil eins vel og hægt er að gera fyrir sælkera sem vilja kúpla sig út úr stressinu og gera ógleymanlega vel við sig í mat og drykk.

 

Hvernig væri að prófa?

Henri Bourgeois Sancerre „Les Baronnes“ 2016

 

Sjá víndóm um vínið hér

Petit Bourgeois 2015

 

Sjá víndóm um vínið hér

Henri Bourgeois Le Baronne 2013

 

Sjá víndóm um vínið hér

Henri Bourgeois Sancerre Les Baronnes Rouge 2014

 

Sjá víndóm um vínið hér

 

Share Post