J. V. Fleury GSM 2016

 

Víngarðurinn segir;

Það er víngerðin Vidal Fleury sem markaðsetur vín frá Languedoc undir merkinu J. V. Fleury en heimavöllur Vidal Fleury er á hinn bóginn Rónardalurinn og það er einmitt önnur, og sennilega þekktari víngerð, Guigal sem á það fyrirtæki. Vidal Fleury er reyndar eldri víngerð en Guigal og þar hóf Etienne Guigal störf einhverntíman rétt eftir heimstyrjöldina síðari áður en hann hóf sjálfstæðan rekstur og endaði svo á því að kaupa víngerðina sem hann hafði unnið hjá.
Ég hef nokkrum sinnum áður dæmt GSM vínin frá Fleury og þar bar hæst árgangurinn 2011 sem á sínum tíma var bara verulega góður (****). Eftir það hafa árgangarnir ekki alveg náð þéttleikanum sem einkenndi 2011 en samt er þetta alltaf nokkuð skothelt vín og góð kaup.
Það er blandað úr þrúgunum Grenache, Syrah og Mourvédre og hefur nokkuð djúpan, plómurauðan lit. Það er svo meðalopið í nefinu með vel atyglisverðan ilm sem er svolitla stund að koma fram en þegar hann birtist þá má greina þarna dökk ber, kirsuber, pipar, leirkennda jörð, austurlensk krydd, plómur og sultuð rauð ber. Það er meðalbragðmikið, þurrt og með góða sýru en tannínin eru að hluta til örlítið hrjúf. Það er býsna jarðbundið og dæmigert með keim af dökkum berjum, kirsuberjum, plómum, sultuðum rauðum berjum og kryddi. Hafið með nokkuð bragðmiklum hversdagsmat, pasta, pottréttum og þesskonar.

Verð kr. 2.199.- Mjög góð kaup.

Share Post