Cune Imperial Reserva 2015
Víngarðurinn segir;
„Flestir áhugamenn um betri Rioja-vín hafa einhverntíman smakkað á Imperial Reservunni frá Cune. Vín sem fyrst fékk verulega athygli þegar það var valið besta rauðvín heimsins af útbreiddu víntímariti hérna fyrir nokkrum árum. Síðan þá hefur það verið reglulega í íslenskum hillum og er alltaf jafn gott þótt örlítill árgangamunur sé auðvitað á því. Árgangarnir 2011 og 2012 fengu báðir fullt hús hjá mér og árgangurinn 2015 er nánast að fá sömu einkunn og munar bara hársbreidd frá því að hann fá fimm stjörnur.
Einsog áður er þetta vín að langstærstum hluta úr Tempranillo og það er þroskað á nýjum eikartunnum í að minnsta kosti eitt ár (einsog reglur kveða á um, en líklega er það þroskað lengur). Það hefur djúpan, kirsuberjarauðan lit og vel opinn og dæmigerðan ilm þar sem mjög margir hlutir koma við sögu. Þarna má til dæmis finna aðalbláber, bláber, krækiberjahlaup, kirsuber í sprittlegi, jarðarberjasultu, lakkrískonfekt, púðursykur, kremaða súkkulaðitóna og yfir og undir þessu öllu eru voldugir eikartónar sem skila vanillu, kókos, toffí og mokka. Það er svo ríflega meðalbragðmikið, þurrt og sýruríkt með töluverð, mjúk tannín og mikla lengd. Það er ennþá nokkuð ungt og þarna má finna krækiber, brómber, kirsuber, aðalbláber, lakkrís, mjólkursúkkulaði, þurrkaðan appelsínubörk, kóla, kókos og muscovado-sykur. Ferlega gott og afar stórt rauðvín sem er best með hátíðarsteikum, lambi, nauti og besta grillmatnum.
Verð kr. 3.999.- Frábær kaup. “