Chateau Fuissé Téte de Cuvée 2017

Vinotek segir;

„Chateau Fuissé er flaggskip AOC-svæðisins Pouilly-Fuissé og jafnframt stærsti landeigandinn, þarna ræktar Vincent-fjölskyldan Chardonnay-þrúgur á einum 25 af bestu hektörum svæðisins. Vínið Téte de Cuvée hét áður Téte de Cru og er blanda úr þrúgum frá einum 40 mismunandi skikum frá bæði Pouilly og Fuissé. Skýringin á nafnabreytingunni er að tvær af ekrum Chateau Fuissé eru í ferli að fá skilgreininguna Premier Cru og yrðu þá fyrstu ekrur Maconnais-svæðisins sem öðluðust þá upphefð. Líkt og önnur vín Chateau Fuissé er Téte de Cuvée hágæða hvítur Búrgundari sem getur hæglega keppt við vín frá frægu þorpsnöfnunum norður í Cote-de-Or. Liturinn er bjartur og ljósgulur og nef vínsins er afskaplega sjarmerandi með sætum sítrónum og þroskuðum ferskjum, apríkósum og suðrænni ávöxtum, eikin vefst utan um ávöxtin, með vanillu og rjóma, brakandi ferskt í munni, þykkt mjúkt og seiðandi. 4.399 krónur. Frábær kaup. Þetta er stórkostlegt hvítvín fyrir peninginn.“

Share Post