Ómótstæðileg pizza með humar, parmesan og hvítlauksolíu.

 

Gerir 2 pizzur

 

Hráefni

Brauðhveiti, 420 g + smá meira til að vinna með

Sykur, 10 g

Borðsalt, 7 g

Þurrger, 7 g

Ólífuolía, 6 msk

Vatn, 280 g

San Marzano tómatar, 1 dós

Oregano þurrkað, 1 tsk

Hvítlauksrif, 3 stk

Hunang, 1 tsk

Humar (skelflettur og hreinsaður), 300 g

Rauðlaukur, ½ lítill

Steinselja, 5 g

Mozzarella ostur (rifinn), 180 g

Sítróna, 1 stk

Klettasalat, 20 g

Parmesanostur, eftir smekk

Aðferð

  • Hitið vatnið í um 30-40 sek í örbylgjuofni þar til það er álíka heitt og notalegt bað.
  • Setjið hveiti, sykur, salt og þurrger í matvinnsluvél og látið vélina ganga í stuttum hrinum í 4-5 skipti þar til allt hefur samlagast vel. Hellið vatni og 2 msk af ólífuolíu yfir hveitiblönduna og látið vélina ganga samfleytt í 15 sek þar til deigkúla hefur myndast. Látið vélina svo ganga í 15 sek til viðbótar.
  • Stráið smá hveiti á borð og takið deigið úr matvinnsluvélinni. Hnoðið deigið í stutta stund og myndið úr því kúlu. Spreyið eða smyrjið stóra skál með olíu og færið deigið í skálina. Hyljið með matarfilmu og setjið í kæli í 2 sólarhringa.
  • Takið deigið úr kæli 2 klst áður en baka á pizzurnar. Skiptið deiginu í tvennt og myndið úr því 2 kúlur. Færið kúlurnar í olíubornar skálar og hyljið með matarfilmu. Látið deigið jafna sig við stofuhita í amk 2 klst.
  • Stillið ofn á 250 °C með yfir og undirhita
  • Þerrið humarinn með eldhúspappír og steikið hann svo upp úr smá smjöri og pressuðu hvítlauksrifi, setjið humarinn á disk og geymið til hliðar.
  • Setjið smá olíu í lítinn pott og stillið á miðlungshita. Pressið hvítlauksrif saman við og steikið í um 1 mín eða þar til hvítlaukurinn er farinn að ilma.
  • Kremjið San Marzano tómatana með höndunum og bætið út í pottinn ásamt vökvanum úr dósinni, oregano  og 1 tsk af hunangi. Náið upp suðu og lækkið svo hitann svo það malli hraustlega í pottinum. Látið malla í um 15 mín og smakkið svo til með salti.
  • Setjið bökunarplötu inn í ofninn til þess að hitna á meðan botnarnir eru mótaðir.
  • Notið hendurnar til þess að fletja botninn út í um 25-30 cm hring. Best er að vinna út frá miðju deigsins í átt að kantinum og reyna að hlífa um 2 cm af kantinum við sem mestu hnjaski, en þannig er gasinu sem hefur myndast yfir síðustu 2 daga ýtt út í kantinn sem verður til þess að hann lyftist mun betur.
  • Smyrjið sósu á botninn og rífið mozzarellaost yfir. Dreifið humar yfir pizzuna ásamt rauðlauk og bakið svo í neðstu grind í ofni í um 8-10 mín.
  • Setjið 4 msk af ólífuolíu í litla skál og pressið 1 hvítlauksrif saman við. Hitið í nokkrum stuttum hrinum í örbylgjuofni þar til hvítlaukurinn er farinn að ilma.
  • Saxið steinselju og rífið sítrónubörk (varist að taka hvíta undirlagið með því það er beiskt á bragðið). Dreifið steinselju og sítrónubörk yfir pizzuna þegar hún kemur úr ofninum ásamt smá salti, ríflegu magni af parmesan, góðri lúku af klettasalati og svolítilil hvítlauksolíu.

Vínó mælir með: Muga Rioja með þessum rétt.

Uppskrift: Matur & Myndir

Post Tags
Share Post