Nautalund með bernaise sósu, salati og sætum kartöflum
Fyrir 2
Hráefni:
Nautalund, 2 x 250 g
Ósaltað smjör, 250 g
Eggjarauður, 4 stk
Bernaise essence, 2 tsk
Nautakraftur, 2 tsk / Oscar
Estragon, 2 tsk
Sætar kartöflur, 400 g
Rósmarín, 1 stilkur
Radísa, 1 stk
Agúrka, 60 g
Smátómatar, 60 g
Salatblanda, 30 g
Fetaostur í kryddlegi, 40 g
Aspas, 100 g / Minni gerðin
Aðferð:
- Takið kjötið úr kæli sirka 30 mín áður en það á að elda það.
- Hrærið eggjarauður og bernaise essence í hrærivél í nokkrar mín þar til blandan er orðin ljós og létt. Bætið þá krafti út í og hrærið áfram.
- Bræðið smjör við vægan hita þar til maður getur rétt naumlega sett fingurinn ofan í smjörið vegna hita. Passið að smjörið sjóði ekki.
- Aukið hraðann á vélinni og hellið smjörinu í mjög rólegri bunu saman við eggjarauðurnar þar til allt hefur samlagast. Varist að hella of hratt eða of miklu í einu því þá getur sósan skilið sig. Bætið estragon út í og látið vélina ganga í um 30 sek. Smakkið til með salti.
- Færið sósuna í lítinn pott eða skál og hyljið með loki þar til maturinn er borinn fram, en sósuna má ekki hita aftur upp.
- Stillið ofn á 200 °C með blæstri, skerið sætar kartöflur í bita og saxið um 2 tsk af rósmarín.
- Veltið sætu kartöflunum upp úr smá olíu, salti og söxuðu rósmarín, dreifið svo yfir ofnplötu með bökunarpappír og bakið í um 30 mín í neðstu grind í ofni en hrærið þegar tíminn er hálfnaður.
- Saltið og piprið steikurnar rausnarlega.
- Hitið stál eða steypujárnspönnu við frekar háan hita þar til það fer að rjúka af pönnunni.
- Bætið um 2 tsk af olíu og smá smjörklípu út á pönnuna. Setjið steikurnar því næst út á pönnuna og hreyfið ekki við þeim í 2 mín. Snúið steikunum og steikið í 2 mín á hinni hliðinni. Færið pönnuna svo rakleiðis inn í miðjan ofn og bakið í um 5-6 mín fyrir medium rare. Tíminn fer eftir þykkt kjötsins og því er gott að notast við kjöthitamæli til að vera viss um að réttum kjarnhita hafi verið náð.
- Sjóðið aspas upp úr söltu vatni í 2-3 mín eða þar til mjúkur undir tönn en þó með smá biti.
- Sneiðið radísur, tómata og agúrku. Rífið salatblöndu eftir smekk og setjið saman í skál með fetaosti.