Töfrandi Bolognese með ristuðum panko raspi og basilíku

Hráefni

Ungnautahakk, 500 g

Gulrót, 100 g

Laukur, 100 g

Sellerí, 70 g

Hvítlaukur, 2 rif

Tómatpúrra, 15 ml / 19 g

Tagliatelle með eggjum, 250 g

Hvítvín, 120 ml

Kirsuberjatómatar í dós, 1 stk / T.d. Mutti

Parmesan, 25 g

Rjómi, 100 ml

Ítalskt pastakrydd, 2 tsk / Pottagaldrar

Fennel duft, 1 tsk / Má sleppa

Nautateningur, 1 stk

Pankó brauðraspur, 20 g / Fæst í asísku deildinni í flestum búðum

Basilíka, 10 g

Aðferð

Hitið 1 tsk af olíu á pönnu. Bætið pankó brauðraspi út á pönnuna og ristið þar til brauðraspurinn er orðinn fallega gylltur. Setjið til hliðar og geymið.

Skolið gulrætur og sellerí og skerið gróflega ásamt lauk. Setjið í matvinnsluvél og látið vélina ganga þar til grænmetið er mjög fínt skorið.

Hitið olíu á stórri pönnu og steikið grænmetið við miðlungshita þar til það er orðið mjúkt og búið að losa frá sér nánast allan vökva, en passið að brenna það ekki. Pressið hvítlauk og bætið út á pönnuna. Steikið í stutta stund þar til hvítlaukurinn fer að ilma.

Bætið hakki út á pönnuna og steikið þar til það er nánast fulleldað. Bætið tómatmauki, nautatening, pastakryddi og fenneldufti út á pönnuna og steikið í stutta stund. Bætið næst hvítvíni út á pönnuna og látið sjóða niður um helming. Rífið helminginn af parmesa ostinum saman við.

Bætið niðursoðnum kirsuberjatómötum út á pönnuna ásamt rjóma og 1 tsk af salti og látið malla undir loki í 30 mín. Takið lokið af og látið malla á meðan pasta er soðið. Ef sósan þykkist of mikið má bæta við ögn af pastavatni og láta sjóða þar til sósan hefur náð hæfilegri þykkt. Smakkið til með salti og pipar.

Sjóðið tagliatelle eftir leiðbeiningum frá framleiðanda en geymið svolítið af pastavatni áður en vatnið er sigtað frá. Bætið tagliatelle út á pönnuna og veltið upp úr kjötsósunni þar til allt hefur samlagast vel. Saxið basilíku og hrærið saman við réttinn. Berið fram með ristuðum panko raspi og restinni af parmesan ostinum til hliðar.

Vinó mælir með: Imperial Reserva Rioja með þessum rétti.

Uppskrift: Matur og Myndir