Lúxus nauta stroganoff með hvítlauks- parmesan kartöflumús

Hráefni

Ungnautafille, 400 g

Kastaníusveppir, 120 g

Hvítlaukur, 5 rif

Laukur, 80 g

Dijon sinnep, 0,5 msk

Kjötkraftur (duft), 2 tsk / Oscar

Worchestershire sósa, 1 tsk

Koníak, 0,5 dl

Rjómi, 2 dl

Timian, 3 greinar eða 0,25 tsk þurrkað

Kartöflur, 400 g

Parmesan ostur, 15 g

Mjólk, 1 msk + meira eftir þörfum

Sýrður rjómi, 3 msk

Breiðblaða steinselja, 5 g

Hveiti, 1 msk

Smjör, 40 g

 

Aðferð

Pakkið 4 hvítlauksrifum þétt inn í álpappír með skvettu af ólífuolíu og svolitlu salti. Bakið í 30 mín við 180°C á blæstri.

Skrælið kartöflur og sjóðið í vel söltuðu vatni í 15-20 mín eða þar til þær eru mjúkar í gegn. Stappið eða pressið kartöflurnar saman við bakaða hvítlaukinn og rífið parmesan ost saman við.

Hrærið 0,5 dl af rjóma saman við kartöflumúsina ásamt 30 g af smjöri og 3 msk af sýrðum rjóma. Bætið við 1 msk af nýmjólk í einu þar til áferðin á kartöflumúsinni er orðin mjúk og góð. Smakkið til með salti og pipar. Þetta skref má líka gera rétt áður en maturinn er borinn fram og hita kartöflumúsina upp á miðlungshita á meðan.

Skerið sveppi í bita og sneiðið lauk í strimla. Týnið laufin af timiangreinunum.

Sneiðið ungnautafille í þunna strimla og veltið upp úr olíu og salti.

Hitið olíu á pönnu við háan hita (helst stálpönnu). Raðið kjötinu á pönnuna og steikið í 30 sek á hvorri hlið takið svo af pönnunni og setjið á disk til hliðar. Þetta skref er best að gera í 2-3 skömmtum svo kjötið steikist sem best. Sumir bitarnir verða ennþá svolítið rauðir en það er í góðu lagi því þeir munu klára að eldast í sósunni á eftir. Við viljum bara ná að brúna kjötið sæmilega fyrst.

Lækkið hitann á pönnunni og bætið 10 g af smjöri út á pönnuna ásamt smá olíu. Steikið sveppina og timian þar til sveppirnir eru byrjaðir að taka lit og eru nánast fulleldaðir. Bætið sneiddum lauk út á pönnuna, pressið 1 hvítlauksrif saman við og steikið áfram þar til laukurinn fer að mýkjast.

Stráið 1 msk af hveiti yfir sveppina og steikið í stutta stund. Bætið koníaki út á pönnuna og sjóðið niður um helming. Bætið rjóma, 150 ml af vatni, dijon sinnepi, kjötkrafti og worchestershire sósu út á pönnuna og látið malla við miðlungshita þar til sósan fer að þykkjast hæfilega.

Bætið kjötinu út á pönnuna ásamt vökvanum af disknum og látið malla í nokkrar mín þar til kjötið er fulleldað. Smakkið til með salti og pipar.

Saxið steinselju og stráið yfir réttinn áður en maturinn er borinn fram.

Berið fram með góðu salati.

Vínó mælir með: Imperial Reserva Rioja með þessum rétt. 

Uppskrift: Matur og Myndir