Dr. Loosen Wehlener Sonnenuhr Riesling Kabinett 2020

 

 

Vínsíðurnar segja;

Riesling vín hafa fengið það orð á sig að vera hálfsæt, óspennandi en auðdrekkanleg í gegnum tíðina og ef ég nefni t.d. gluggavínið eða bláu nunnuna þá veit fólk nákvæmlega hvað ég á við. Hvað ef ég mundi segja ykkur að það væri til vín sem væru alls ekki óspennandi heldur þvert á móti, gríðarlega spennandi og nánast ómótstæðilega gómsætt. Endurvakning Riesling vína frá Þýskalandi hefur verið í gangi nú í um 30 ár og hefur Erni Loosen staðið þar framar en nokkur annar. Hans verkefni hefur verið einfalt, að koma Riesling aftur á þann stað sem það var fyrir um 150 árum, eins konar “Make Riesling great again”. Aðal verkefni var að breyta þessari neikvæðu mynd sem var orðin til af hálfsætum Riesling og sýna heiminum hvernig slík vín ættu í raun að vera. Hér er frábært dæmi um eitt slíkt.

Ávöxturinn kemur frá hinni frægu Sonnenuhr vínekru nálægt bænum Wehlen þar sem sólarúr frá árinu 1842 trónir yfir vínviðinn. Ekran er, eins og margar ekrur Moseldalsins, ansi brött og snýr hún í suð-suðvestur. Leirkenndur flögubergsjarðvegurinn ljáir vínunum góðan ferskleika sem kemur sér gríðarlega vel við framleiðslu Kabinettvína eins og þetta.

Vínið er föllímónugult á litinn og galopinn ilm af rosalega gómsætum ferskjum, litchí, vínberjum, hvítum blómum ásamt sítrónu og steinefnum í bakgrunninum. Frábær ilmur sem er hægt að staldra nokkuð lengi við. Í munni er það hálfsætt en frábær sýra heldur víninu upp og sér til þess að það verði ekki flatt og of sætt. Frábær ávöxtur líkt og í nefi og yfir höfuð gott jafnvægi þó svo að það halli augljóslega aðeins meira á sætuna. Þetta er vín sem er afskaplega auðvelt að njóta eitt og sér en það mundi líka smellpassa með sterkari indverskum réttum t.d..

Okkar álit: Hálfsætt, frábær ávöxtur en alls ekki flatt þökk sé góðri sýru. Einfalt en algjört nammi.

Verð: 2.895 kr

Post Tags
Share Post