Harissa og hunangs bleikja með brúnum hrísgrjónum, fetasósu og appelsínusalati

 

Hráefni

Bleikja, 500 g

Harissa, 1 msk

Hunang, 2 msk

Hvítlauksrif, 1 stk

Brún hrísgrjón, 120 ml

Steinselja, 8 g

Sítróna, 1 stk

Fetaostur hreinn, 40 g

Majónes, 50 g

Sýrður rjómi 18%, 50 g

Dill, 5 g

Appelsína, 1 stk

Lárpera, 1 stk

Heslihnetur, 15 g

Rauðlaukur, ½ stk lítill

Salatblanda, 50 g

 

Aðferð

Forhitið ofn í 180°C með blæstri.

Setjið 240 ml af vatni í lítinn pott ásamt svolitlu salti. Náið upp suðu og bætið hrísgrjónum út í pottinn. Lækkið hitann svo það kraumi rólega í vatninu og látið malla undir loki í 30 mín. Takið af hitanum og látið standa í 10 mín. Saxið steinselju og rífið sítrónubörk (varist að taka hvíta undirlagið með). Hrærið steinselju og sítrónuberki saman við hrísgrjónin rétt áður en maturinn er borinn fram.

Hrærið saman harissa mauki, hunangi og 1 pressuðu hvítlauksrifi. Pennslið bleikjuna með harissa hunangsblöndunni og bakið í miðjum ofni í 10-12 mín eða þar til bleikjan er fullelduð og losnar auðveldlega í sundur.

Stappið fetaost saman við majónes og sýrðan rjóma. Saxið dill og hrærið saman við sósuna ásamt smá sítrónusafa. Smakkið til með salti og meiri sítrónusafa ef þarf.

Skerið börkinn utan af appelsínunni og skerið svo bátana frá án himnunnar. Það gerið þið með því að halda appelsínunni í hendinni og renna beittum hníf varlega sitt hvoru megin meðfram himnunni á hverjum bát og að miðju appelsínunnar, en þá ætti báturinn að losna auðveldlega frá. 

Sneiðið rauðlauk, grófsaxið heslihnetur, rífið salatblöndu og skerið lárperu í bita. Blandið saman appelsínubátum, rauðlauk, lárperu, heslihnetum og salatblöndu í skál ásamt smá ólífuolíu.

Vínó mælir með: Louis Jadot Chablis með þessum rétti.

Uppskrift: Matur & Myndir