Stroh

 

Stroh er kryddað romm frá Austurríki og er einn af einkennisdrykkjum landsins.
Saga þess nær aftur til ársins 1832 er Sebastian Stroh fékk þá flugu í höfuðið að búa til snafs er myndi ylja mönnum í kulda og vosbúð, veiðitúrum, skíðatúrum og alls kyns útiveru. Hann vildi hafa drykkinn líkan rommi en þar sem Austurríki er landlyksa, þ.e. liggur hvergi að sjó var í þá daga erfitt að flytja inn romm eða nálgast sykurreyr eða mólassa sem þarf til rommgerðar.
Fyrst um sinn var Stroh gert úr alkóhóli búnu til úr sykurrófum, blandað hinum ýmsustu jurtum. Í dag er það framleitt úr mólassa, rétt eins og flest romm í karabíska hafinu, auk hinna ýmsustu jurta og bragðefna en heildaruppskriftinni er haldið vel leyndri.

Eins og áður sagði nær saga Stroh aftur til ársins 1832 er Sebastian Stroh fór að prófa sig áfram með framleiðslu snafs í bænum St. Paul og lagði grunninn að afar farsælu fyrirtæki.
Eftir fráfall Sebastians tók ekkja hans, Maria Stroh við, flutti framleiðsluna til Klagenfurt, steinsnar frá, árið 1857 og hefur hún farið fram þar síðan.

Kjarnaframleiðslan er Stroh 40, Stroh 60 og Stroh 80 en tölurnar vísa til alkóhólinnihaldsins. Stroh 60 og 80 eru því augljóslega geysilega sterk og er alls ekki mælt með neyslu þeirra einna og sér. Sögulegar rætur sterks Stroh liggja að miklu leyti í eldamennsku og bakstri en það er mjög fyrirferðarmikið í alls kyns austurrísku bakkelsi.
Auk þess er það oft og tíðum blandað í ýmis hanastél en einn vinsælasti Stroh-drykkur Austurríkismanna er Jagertee, sem myndi útleggjast sem veiðite, eða veiðimannate. Þar er sterku Stroh hrært út í svart te og hefur það yljað veiðimönnum í áratugi.
Einnig er mjög vinsælt að blanda Stroh út í aðra heita drykki eins og kaffi og kakó.

En hvernig bragðast Stroh síðan? Uppskriftir milli styrkleikanna eru þær sömu, svo við skulum taka fyrir Stroh 40.
Anganin einkennist af mikilli karamellu. Hún er mjög sæt, mólassi, vanilla, mikill kryddkeimur, múskat, negull, kanill, ristaðar möndlur.
Bragð: Sterk krydd, vanilla, karamella, frekar ágengt. Berjakeimur, kirsuber.
Eftirbragð: Nokkuð langt og heitt. Kanill, vanilla, hnetur.

Stroh er einstakur drykkur í sínum röðum. Afskaplega bragðmikill og háa alkóhólinnihaldið veldur geysimikilli bragðsprengingu í munni. Þó er sem fyrr segir ekki mælt með að drekka sterkari útgáfurnar einar og sér heldur eru þær aðallega hugsaðar til blöndunar, baksturs og matargerðar.

Post Tags
Share Post