Roku

 

 

Roku gin er háklassa gin alla leið frá Suntory framleiðandanum í Japan. Þess má geta að þaðan koma einnig viskíin Yamazaki, Hakushu, Hibiki og Chita. Á japönsku þýðir orðið Roku 6, en í gininu eru sex hráefni sem eingöngu vaxa í Japan auk átta annarra klassískra gin-hráefna.

 

 

Þessi 6 japönsku eru:

Sakuralauf, Sakurablóm, Sansho-pipar, Sencha-te, Gyokuro-te og Yuzu ávöxturinn sem er sítrusávöxtur sem svipar til einhverskonar blöndu af greipaldin og sítrónu. Þessi sex hráefni eru öll eimuð hver í sínu lagi og í mismunandi eimurum til að bragðeinkenni hvers og eins haldi sér betur.

Hin átta hráefnin eru eftirfarandi:

Einiber, kóríander, hvönn, hvannarfræ, kardimommur, kanill, auk appelsínu- og sítrónubarkar. Úr verður afskaplega fágað, elegant og margslungið gin sem er listavel sett saman og með dásamlegt jafnvægi milli allra þessara hráefna, enda eru Japanir ekki þekktir fyrir neitt annað en að gera það vel sem þeir taka sér fyrir hendur.

Roku gin er afrakstur tæplega 100 ára ginframleiðslu hjá Suntory fyrirtækinu þar sem bæst hefur á þekkinguna og gæðin ár frá ári og er Roku nánast hið fullkomna gin, hvort sem er eitt og sér eða í hanastélum.

Algengast er jú að blanda gin út í hin ýmsu hanastél eða drekka með tónikvatni.

Skoðum nokkur hanastél sem Roku hentar vel í.

 

G&T:

Einfalt og gott. Gott tónik í glasi fullu af ísmolum. Skerið ferskt engifer í nokkrar litlar ræmur á stærð við nokkuð langa eldspýtu og setjið út í glasið. Vissulega mælir Roku með sex ræmum! Hrærið og njótið. Mjög ferskt og frískandi.

 

Negroni:

Roku gin, Campari og sætur, rauður vermúður í jöfnum hlutföllum. Ísmoli og appelsínusneið út í.

 

Gin Martini:

Roku gin ca 60ml. U.þ.b. matskeið af þurrum vermúð og ferskt engifer.

 

 

Hvernig bragðast Roku gin þá?

-Angan: Grösug, blómleg, kirsuber, sæt.

-Bragð: Mjög margslungið en öll hráefnin njóta sín vel í geysilega góðu jafnvægi. Milt bragð og silkimjúk áferð. Nokkuð áberandi sítrusávöxtur, mjög ferskt.

-Eftirbragð. Kryddað, piparinn situr eftir nokkuð lengi auk sítrussins.

-Niðurstaða: Framúrskarandi vel heppnað gin sem enginn aðdáandi drykkjarins ætti að láta fram hjá sér fara.

Post Tags
Share Post