Nikka From The Barrel fyrstu verðlaun!
Hið virta veftímarit Drinks International tekur reglulega fyrir hina ýmsu áfengu drykki og veitir verðlaun í hinum ýmsu flokkum. Í flokknum ,,World Whiskies” eða heimsviskí fékk hið frábæra, japanska viskí, Nikka From The Barrel fyrstu verðlaun þó keppinautarnir væru engir aukvisar.
Þar var Nikka att saman við annað japanskt viskí, Yamazaki sem og Kavalan sem er ættað frá Taívan en í þessum flokki koma saman viskí frá öðrum löndum en Skotlandi, Írlandi og Bandaríkjunum. Eins og viskíunnendur vita þá eru japönsk viskí flest hver frábær, virkilega vandað til verka og standa kollegum frá t.d. Skotlandi síst að baki. Þau eru t.a.m. framleidd á sama hátt og skosk og það sem margir gera sér ekki grein fyrir er að Japanir hafa staðið í viskíframleiðslu í næstum heila öld.
Nikka From The Barrel er blanda frá Nikka framleiðandanum sem á tvær verksmiðjur, aðra í Yoichi í norður Japan og hina í Miyagikyo í miðri Japan. Í Yoichi eru eingöngu framleiddir léttreyktir einmöltungar en í Miyagikyo eru framleiddir óreyktir einmöltungar í hefðbundnum potteimurum auk kornviskía úr ,,continuous stills” eða síeimurum. Í Nikka From The Barrel koma saman þessar þrjár tegundir; Yoichi og Miyagikyo einmöltungar í bland við kornviskí úr síeimurum og er þeim listavel blandað saman eins og Japönum er von og vísa.
Nikka FTB er átappað nokkuð sterkt eða 51.4% og því nýtur viskið sín til fulls. Mjög aðgengilegt beint úr flöskunni, en er þó ögn feimið svo það er um að gera að leyfa því að slaka ögn á og opna sig með því að bæta örlitlu af vatni út í glasið. Þarna kemur fram mikill ávaxtakeimur, eik, krydd, vanilla og það er einnig nokkuð blómlegt/grösugt.
Það er virkilega viðráðanlegt og höfðar til allra þeirra sem hafa áhuga á þessum margslungna drykk, hvort sem er drukkið eitt og sér eða í hverju því hanastéli sem inniheldur létt og ávaxtakennd viskí.
Geysilega glúrið viskí og það á verulega góðu verði. Það er mjög erfitt að slá Nikka við hvað þessa ofantöldu kosti varðar og er það því vel að titlinum komið sem sigurvegari Drinks International.
Verð: 7.999kr
Fæst í Vínbúð