Hátíðarvínin 2021
Aðventa, jól og áramót er sá tími ársins þegar flestir vilja gera vel við sig í mat og drykk. Flest leggjum við mikinn metnað og vinnu í matinn og er því mikilvægt að það vín sem er valið með matnum sé í svipuðum gæðaflokki. Að því sögðu tókum við saman nokkur afbragðs góð matarvín sem við mælum með að þið prófið yfir hátíðarnar.
Altanza Reserva
Vínið er fallega djúp rautt á lit. Í nefi má finna þéttan rauðan ávöxt, þá helst jarðarberjasultu og plómur, dökkt súkkulaði, lakkrís og þurrkaðan appelsínubörk. Í bragði má greina bláber, lakkrís, vanillu og þurrkaða ávexti. Vín með góða sýru og mjúk tannín. Alveg hreint framúrskarandi vín sem óhætt er að mæla með.
Cerro Anon Reserva
Cerro Anon er eitt af vínum Olarra og er Reserva vínið blanda úr þremur megin þrúgum Rioja, Tempranillo Graciano og Mazuelo. Liturinn er dökkur og þéttur. Vínið er kröftugt en tannínin eru þroskuð og mjúk, áferðin þægileg, vínið langt. Mikið vín fyrir peninginn. Frábært matarvín með nauti, lambi og hreindýrakjöti.
Cune Gran Reserva
Gran Reserva er toppurinn á stiganum í gæðakerfi Rioja. Cune Gran Reserva er geymt í tvö ár á tunnu og 3 ár á flösku áður en það er sett á markað. Vínið er mjög fínlegt og elegant. Liturinn er fallega djúprauður, í nefi má greina dökk kirsuber, krydd, sæta og fínlega eik. Strúkturinn er mjúkur, tannín fínleg, vínið þurrt og þétt. Frábært rauðvín með góðri steik
Emiliana Coaym
Vínið er dimmfjólublátt á lit, liturinn þéttur og djúpur. Ríkjandi dökkur ávöxtur í nefi, sólber og kirsuber, bláberjasafi, eikin framarlega með vanillu og dökkristuðum kaffibaunum. Í munni er vínið fágað, fínleg tannín og langt og þurrt. Vín sem má vel geyma en er mjög gott að drekka núna, ekki síst ef vínið fær tíma til að opna sig, t.d. með umhellingu. Algjörlega frábært rauðvín.
Louis Jadot Chardonnay
Ljóssítrónugult. Meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Sítrus, epli, pera, vanilla, kókos, eik.
Muga Selecction Especial
Muga Selecction Especial er svakalega flott matarvín, búið til úr þrúgunum Tempranillo, Garnacha, Carignan og Graciano. Vínið er þroskað í 26 mánuði á frönskum eikartunnum og svo í 18 mánuði í flösku áður en það er sett á markað. Vínið er dökkkirsuberjarautt. Þétt fylling, ósætt, fersk sýra, þétt tannín. Þroskuð kirsuber, sólber, barkarkrydd, skógarbotn. Einstaklega elegant vín í góðu jafnvægi.
M. Chapoutier Cotes Du Rhone
Chapoutier er með fremstu framleiðendum Frakklands og er staðsett í bænum Tain I’Hermitage í Rhone dalnum og þekktast fyrir Hermitage vínin sín stórkostlegu. Allt sem kemur frá þessu vínhúsi er í hæsta gæðaflokki og Belleruche vínið með þeim bestu í sínum flokki. Vínið hefur þétta fyllingu, ferska sýru og þétt tannín. Silkimjúkt vín í munni, kraftmikið berjabragð og góður endir.
Vín sem smell passar með nauti, lambi, hreindýrakjöti
Imperial Reserva
Imperial Reserva er að mestu búið til úr Tempranillo og það látið þroskast á nýjum eikartunnum í að minnsta kosti eitt ár. Vínið hefur fallegan djúpan, kirsuberjarauðan lit. í nefi má finna aðalbláber, krækiberjahlaup, jarðarberjasultu, lakkrískonfekt, súkkulaðitóna og volduga eikartóna.
Þetta er glæsilegt og stórt rauðvín sem sómar sig mjög vel með góðum mat.
Saint Clair Omaka Chardonnay
Omaka Reserve Chardonnay er sjarmerandi nýja-heims Chardonnay, liturinn gulur og ávöxturinn suðrænn og sætur, þroskaðar ferskjur, sætur greipávöxtur og ástaraldin og þykk og sæt eik. Víngerjun Omaka Reserve í amerískri eik, sem leynir sér ekki, mikil vanilla og ristaðar hnetur. Kröftugt og þykkt, fersk og fín sýra, dásamlegt matarvín.
Willm Pinot Gris Reserve
Willm Pinot Gris er svakalega flott matarvín, það hefur góða sætu og sýru sem gerir það að verkum að það hefur mikla breidd þegar kemur að mat. Í nefi má greina sætar og sykraðar mandarínur, sítrus og sætar perur. Þetta vín er frábært með forréttum á borð við kæfu og reyktan lax og líka mjög gott með hamborgarahryggnum.