Willm Riesling Réserve 2019

 

 

Víngarðurinn segir;

Sitthvoru megin við Rínarfljótið sunnanvert eru heilmiklar vínekrur. Austanmegin við fljótið, milli borganna Karlsruhe og Basel í Sviss er það Baden, afar víðfemt svæði sem á síðustu árum hefur verið einhver dínamýskasti hluti Þýskalands. Þarna eru sennilega gerð einhver bestu vín úr Pinot Noir-þrúgunni og ekki kæmi mér á óvart að þau færu að nálgast gæði Búrgúndarrauðvína innan fárra áratuga. Vestan megin við Rínarfljótið er það hið franska Alsace sem fleiri þekkja og þarna blandast saman frönsk og þýsk arfleifð á ógleymanlegan hátt.

Þrúgurnar eru mikið til þær sömu, mest hvítar en þær rauðu eru sífellt að sækja í sig veðrið. Gewurztraminer, Silvaner, Muscat, Pinot Gris og auðvitað mesta gæðaþrúgan af þeim öllum: Riesling. Þótt stíllinn í Þýskalandi sé reyndar stöðugt að færast nær þeim franska þá má auðvitað ennþá finna þar gamla, létta, hálf-þurra stílinn sem þeir hafa verið þekktastir fyrir. En nútíminn kallar á annarskonar víngerð og þurrari og þéttari vín eru seljanlegri vara.

Frakkar hafa alltaf gert þurr og þétt vín úr Riesling og framleiðandinn Willm er staðsettur frekar norðarlega innan Alsace-svæðisins, við þorpið Barr þar sem Grand Cru-ekran Kirchberg er sannarlega sú besta. Þessi Riesling er ljós-gylltur að lit og býr yfir meðalopinni angan sem er ansi dæmigerð með græn og gul epli, læm, sítrónu, græn kryddgrös, peru, hunang og olíukennda steinefnatóna. Það er svo meðalbragðmikið með þetta hárrétta súr-sæta jafnvægi sem einkennir vínin úr þessari þrúgu. Þarna er ekki ólíklegt að rekast á gul og græn epli, sítrónubúðing, peru, hunang, feita steinefnatóna og kryddgrös. Hér var dómur um 2018-árganginn í fyrra. Þessi er ekki ólíkur en ögn sýruminni og því lifir hann nokkrum andartökum skemur og hefur ekki alveg jafn flókinn bragðprófíl þótt ilmurinn sé jafn góður. En engu að síður skemmtilegt og dæmigert vín sem er frábært með allskonar forréttum, asískum mat, reyktum fisk og jafnvel brgaðmiklum ostum.

Verð kr. 2.899.- Mjög góð kaup.

Post Tags
Share Post