Víngarðurinn segir;

„Einhverja 20 kílómetra fyrir suð-vestan borgina Strasbourg er þorpið Barr, norðarlega innan hins skilgreinda víngerðarsvæðis Alsace (þessi hluti kallast Bas-Rhin) og við það þorp er Grand Cru ekran Kirchberg (sem ekki má rugla saman við Kirchberg de Ribeauville sem er mun sunnar). Þarna er Willm með sínar höfuðstöðvar og gerir nokkur frábær vín, þar með talin einhvern besta Gewurztraminer sem frönsk víngerð framleiðir, Clos Gaensbronnel (sem er auðvitað Grand Cru). En þetta Pinot Gris er einnig allrar athygli vert. Vínið er gyllt að lit og hefur meðalopna angan þar sem áberandi eru niðursoðnir ávextir, steinefni, apríkósur, perusafi, lyche, fylltur lakkrís og kókosbolla. Svona feitlagin þrúga einsog Pinot Gris er sjaldan feimin og til baka, en sjarminn í þessum vínu frá Alsace getur verið óviðjafnanlegur og sem matarvín eru vín úr henni einhver öruggustu kaup sem finna má.

Það er svo rétt ríflega meðalbragðmikið með búttaðan og sætkenndan ávöxt í bland við góða sýru, glæsilega byggingu og góða lengd. Þarna má svo greina soðin epli, niðursoðna ávexti, peru, perujógúrt, lyche, ananas, sætan sítrónubúðing og rautt greipaldin. Kryddað, stórt og mikið hvítvín sem má gjarnan umhella áður en þess er neytt og það þarf allsekki að vera helkalt úr ísskáp. Skothelt matarvín sem gengur með nánast hverju sem er, en er best með bökum, forréttum, feitari fiskréttum, krydduðum asískum mat og fuglakjöti. Verð kr. 3.499.- Mjög góð kaup.“

Share Post