Willm Crémant d’Alsace Brut

 

 

Vínsíðurnar segja;

Willm hefur komið mér skemmtilega á óvart á árinu sem er að líða með virkilega frambærilegum vínum og er Willm Riesling Reserve 2019 til dæmis eitt af skemmtilegri vínum sem ég smakkaði á árinu. Það virðist svo vera nokkurn veginn sama hvað ég smakka frá þeim, það er einhvern veginn allt gríðarlega vel gert, ljúffengt og kannski mikilvægast – á góðu verði. Hér erum við með Crémant frá þeim sem er, eins og einhverjir kunna að vita, framleit samkvæmt hefðbundnu aðferðinni (méthode traditionelle) líkt og kampavín eru gerð. Vínið er gert að mestu leiti úr Pinot Blanc sem er svo blandað saman við Auxerrois og fær það svo að dvelja í flöskunum í 12 mánuði áður en það er loks sett á markað.

Vínið er fölgult á lit með fínlegum loftbólum og er ilmurinn eilítið lokaður í byrjun. Eftir smá tíma í glasi kemur fram dásamlegur ilmur sem einkennist af ferskum sítrónum, sítrónuböku, gulum blómum, grænum eplum, apríkósum og steinefni. Afskaplega ljúfur og aðlaðandi ilmur. Í munni er það þurrt og ferskt með sítrónur, perur og gul blóm í lykilhlutverki en léttur hafrakexkeimur er á bakvið. Virkilega djúsí ávöxtur frá upphafi til enda ásamt góðri sýru og flottri byggingu.

Okkar álit: Stílhreint og fínlegt með safaríkum og ljúffengum ávexti. Virkilega ljúffengt.

Verð 2.699 kr

Post Tags
Share Post