Vidal Fleury Côtes du Rhône Blanc 2018

 

 

Víngarðurinn segir;

Núna fyrr í vor var hér pistill um rauða Côtes du Rhône-vínið af árganginum 2016 frá Vidal Fleury (****) sem er auðvitað afbragðs vín, en fyrir mitt leiti er hið hvíta enn betra og hugsanlega eitt skemmtilegasta og besta hvítvín sem okkur stendur til boða núna og ekki spillir fyrir að það er afar vel prísað.

Framleiðendur í Rónardalnum geta valið um nokkrar þrúgur til að gera sín hvítu vín og þær helstu eru Roussanne, Marsanne, Grenache Blanc og Viognier. Sumstaðar má eingöngu nota Roussanne og Marsanne (td í hinum hvítu Hermitage-vínum) eða Viognier (Chateau Grillet, sem er minnsta skilgreinda víngerðarsvæði Frakklands) en annarsstaðar má nota þær þrúgur sem hin skilgreindu víngerðarsvæði leyfa, sem geta verið ansi margar einsog sjá má í Chateauneuf-du-Pape. Þetta vín er að stærstum hluta til úr Viognier og það finnst glöggt á áferð þess.

Þetta er strágyllt vín að lit með ríflega meðalopna angan sem er sætkennd og ávaxtarík með búttaðan og mjúkan undirtón. Þarna má finna niðursoðna ávexti, perujógúrt, fresíur, ananas, steinaávexti, eplaböku, kerfil, rifsber, rjóma og apríkósur. Það er svo ríflega meðalbragðmikið, feitlagið og mjúkt en með góða sýru svo jafnvægið helst allan tíman og skilar langvarandi bragðprófíl. Þarna eru svo steinaávextir, þroskuð pera, niðursoðinn ávaxtakokteill, eplabaka, perujógúrt, ananas og stenefni sem slá útí saltlakkrís. Heillandi hvítvín sem er yndislegt eitt og sér en það ræður líka við allskonar mat, bragðmeiri forrétti, feita fiskrétti, ljós fuglakjöt og mjúka osta. Verð kr. 2.399.- Frábær kaup.

Post Tags
Share Post