Michel Lynch Reserve Médoc 2016

 

 

Víngarðurinn segir;

Flest alvöru áhugafólk um vín kannast við Michel Lynch sem um áratugaskeið var í fararbroddi víngerðarmanna í Bordeaux og þá ekki síst fyrir hið stórkostlega Pauillac-rauðvín Chateau Lynch Bages sem hefur verið í fremstu röð meðal vínhúsa þessa heims. Nú hafa börn hans tekið við helstu stjórn samsteypunnar og frá henni koma margskonar vín sem eru öll afar athygliverð þótt þau nái kannski ekki með tærnar þar sem Chateau Lynch Bages hefur hælana.

Michel Lynch Reserve Médoc er blanda úr helstu einkennisþrúgum Bordeaux, Merlot og Cabernet Sauvignon og þær koma af nokkrum ekrum á Médoc-skaganum. Það býr yfir þéttum og ríflega meðaldjúpum plómurauðum lit. Það er meðalopið í nefninu með angan sem minnir á sólber, paprikur, plómur, lyng, krækiberjasaft, mómold og sprittlegin kirsuber. Þetta er kunnuglegur og staðbundinn ilmur sem getur eiginlega hvergi verið annarsstaðar frá en Bordeaux. Það er svo meðalbragðmikið, þurrt og ferskt með góða sýru og vel byggð og póleruð tannín. Þarna má svo greina sólber, krækiber, brómber, plómur, Mon Chéri-mola, papriku og jarðbundna leirtóna.

Virkilega vel gert, áferðarfallegt og upprunalegt rauðvín sem inniheldur dágóðan skammt af þeim elegans sem einkennir betri rauðvín frá Bordeaux. Hafið það með lambi, nauti, villibráð og öðru rauðu kjöti.
Verð kr. 2.999.- Frábær kaup.

Post Tags
Share Post