Dievole Chianti Classico 2017
Það er dálítið dapurleg þróun að sjá hversu erfitt hin klassísku og glæsilegu vín frá Chianti eiga nú uppdráttar í einokunnarversluninni á meðan allskonar sætt og alkóhólríkt sull virðist seljast í bílförmum. Vonandi átta neytendur sig á því einn daginn að þurr, sýrurík og vel byggð vín eru einfaldlega bara miklu betri og fara miklu betur með matnum. Og fara miklu betur með neytendur.
Dievole er víngerð í Toskana sem er í eigu fjölskyldu Alejandro Bulgheroni en hún er einnig að gera vín á fleiri stöðum á þessum slóðum meðal annars undir merkjum Tenuta Meraviglia og Podero Brizio. Á síðasta ári fjallaði ég einmitt um Novocento Riserva-vínið frá Dievole en þessi „einfaldi“ Classico er engu síðri og jafnvel dæmigerðari en hið þéttofna Novocento.
Þetta vín er nú lífrænt og einsog öll Chianti Classico-vín að langstærstum hluta úr þrúgunni Sangiovese. Það hefur rétt ríflega meðaldjúpan og rúbínrauðan lit með múrsteinstónum og rétt ríflega meðalopna angan sem er afar dæmigerð. Þar má greina kirsuber, leður, krækiber, rykug steinefni, lakkrís, tóbak, þurrkaða ávexti, apríkósur og beiskar möndlur. Þetta er heillandi og fjölbreyttur ilmur sem stendur á djúpum rótum í hinum ítalska jarðvegi. Það er svo ríflega meðalbragðmikið, sýruríkt og inniheldur töluvert magn af þéttum og sætum tannínum. Þarna eru kirsuber, þurrkaðir ávextir, dökk ber, lakkrís, tóbak, appelsínubörkur og steinefni. Langvarandi og glæsilegt rauðvín sem stendur fyllilega fyrir sínu þrátt fyrir erfiðan árgang á þessum slóðum. Hafið með allskyns flottu rauðu kjöti. Naut, hross og lamb er best.
Verð kr. 2.999.- Frábær kaup.