Vidal-Fleury Côtes du Rhône 2017
Víngarðurinn segir;
Það er óhætt að segja að víngerðin Vidal-Fleury sé í stöðugri sókn og nú er svo komið að vínin frá þessari henni hljóta að teljast einhver öruggustu kaupin sem okkur standa til boða þessi misserin. Kannski ekki furða því hún er í eigu Guigal-fjölskyldunnar sem hefur lagt töluvert í að gera vínin betri og það hefur sannarlega skilað sér í einhverjum besta árgangi af hinu rauða Côtes-du-Rhône sem ég hef smakkað framtil þessa.
Ég hef nú nokkrum sinnum haldið því fram á prenti að vínin frá Rónardalnum séu reyndar einhver öruggustu og bestu kaup sem menn gera dags daglega. Þau eru allt í senn þétt, vel byggð, matarvæn og vel prísuð vín svo líkurnar á því að rekast á lélega flösku af Côtes du Rhône eru minni en frá mörgum öðrum svæðum. Og það eru ekki bara rauðu vínin sem eru traust, hvítu vínin eru einnig í mikilli sókn og eru einhver bestu hversdagsvín sem maður kemst yfir. Við höfum líka verið býsna heppin hérna á Íslandi með góða framleiðendur sem standa okkur til boða: Guigal, Chapoutier, Perrin-fjölskylduna (sem á m.a. Ch. Beaucastel í Chateauneuf-du-Pape) og auðvitað Vidal-Fleury. Allt frábærar víngerðir.
Þessi árgangur er sem fyrr blanda af nokkrum þrúgum en mest er þó þarna af Grenache en einnig Syrah, Mourvédre og Carignan. Það býr yfir dimm-fjólurauðum lit og hefur dæmigerða og unglega angan sem minnir á rauð sultuð ber, plómur, fjólur, kirsuber, jarðarber, toffí, asísk krydd og reykelsi. Það er svo rétt ríflega meðalbragðmikið, þurrt og með ferska sýru, mjúk og greinileg tannín og frábært jafnvægi. Það er vissulega dálítið ungæðislegt en allsekki ósamsett og ég er ekkert endilega að mæla með því að geyma einföld Côtes du Rhône í einhver tíma, þótt flest þeirra lifi í amk 5 ár frá uppskeru. Þessi vín eru einfaldlega best meðan þau eru ung og sprikklandi. Þarna eru rauð ber, dökk sultuð ber, reykur, austurlensk krydd, plómur og rykug jörð. Virkilega vel heppnað vín sem fer vel með allskonar mat, bæði pottréttum, pasta og grilli en einnig fínum lambasteikum og krydduðum norður-afrískum mat. Verð kr. 2.699.- Frábær kaup