Muga Blanco 2019

 

 

Víngarðurinn segir;
Víngerðin Muga í Rioja gerir ekki bara framúrskarandi rauðvín. Hvítu vínin þeirra, og reyndar rósavínin líka, eru hvert á sinn hátt frábær vín sem jafnast algerlega á við þau rauðu. Muga Blanco hefur nokkrum sinnum komið inn á borð Víngarðsins en árgangarnir 2016 og 2017 fengu báðir sömu einkunn og þetta vín hér, svo það er óhætt að segja að gæðin séu stöðug.

Þetta vín er stærstum hluta til úr hinni hvítu einkennisþrúgu Rioja, Viura (sem einnig er þekkt í Suður-Frakklandi undir nafninu Macabeo), en einnig eru þarna þrúgurnar Malvasia Blanca og Garnacha Blanca sem bæta við góðum skammti af fitu og þéttleika, en það er svo einnig gerjað og þroskað í eikartunnum sem bætir enn einni víddinni við þessa blöndu.

Það er ljós-strágyllt að lit og hefur meðalopna angan þar sem hvít blóm eru framarlega en einnig sætir sítrustónar, pera, niðursoðnar apríkósur, ananas, léttristuð eik og mjólkurfita. Það er svo ríflega meðalbragðmikið, þurrt með ferska og lifandi sýru, löngu bragði og það endar svo í söltum steinefnum. Það er ekki ólíklegt að rekast þarna á sítrónur, melónu, peru, greipaldin, apríkósur og léttristaða eik, Verulega gott, matarvænt og heillandi hvítvín sem fer vel með allskonar mat, forréttum, bragðmeiri fiskréttum, ljósu fuglakjöti og svo er það sérlega ljúffengt bara eitt og sér.

Verð kr. 2.999.- Frábær kaup.

Post Tags
Share Post