Vidal-Fleury Côtes du Rhône 2016

 

 

Víngarðurinn segir;

„Hvaða vín eru öruggustu kaupin í vínbúðinni? Þessu verður auðvitað ekki svarað á einfaldan hátt en þetta (eða svipuð orðuð spurning) er reglulega lagt fyrir mig og ætlast til að maður hafi svör á reiðum höndum. Og þótt einfalda svarið sé að það fari eftir smekk hvers og eins þá eru ákveðin vín upptil hópa öruggari kaup en önnur. Um þessar mundir held því fram að maður fái mest fyrir peningana þegar maður kaupir rauðvín frá Spáni og það virðist einu gilda hvaðan það kemur og hvort maður spanderar 1990 krónum eða 4500 krónum, maður er alltaf að fá meira fyrir peningin þar. Sum fyrirtæki bjóða líka bara betri vörur en aðrir fyrir sama (eða minni) pening, þar á ég við víngerðir einsog Montes í Chile og Villa Wolf í Þýskalandi en allur þessi inngangur er til þess að undirstrika eitt: Côtes du Rhône eru einhver öruggustu kaupin í dag og oft á tíðum er neytendur að fá miklu meira fyrir hverja krónu sem þeir eyða í þau vín og þetta vín hér frá Vidal-Fleury er engin undantekning.

Vidal-Fleury er rótgróin víngerð í Rónardalnum og þar steig meðal annara Etienne Guigal sín fyrstu spor áður en hann stofnsetti sína eigin víngerð og endaði á því að kaupa Vidal-Fleury árið 1984 (það er samt rekið sem sjálfstæð eining). Frá henni koma vín víða að úr Rhône, bæði norðan- og sunnanverðum dalnum og ætli hans besta vín sé ekki Côte-Rôtie La Chatillon sem kemur frá Côte Blonde. Þetta er hinsvegar bara „venjulegur“ Côtes du Rhône, blandaður úr Grenache, Syrah. Mourvédre og Carignan.

Það hefur þéttan fjólurauðan lit og meðalopna angan sem er dæmigerð og ljúf með glefsur sem minna á rauð sultuð ber, stappaðan banana, rykug steinefni, grafít, negul, pipar og bláberjasultu. Það er svo meðalbragðmikið með fína sýru og mjúk meðaltannín. Þarna eru dökku berin ögn meira áberandi en í nefinu og hægt að finna krækiber, rauð sultuð ber, lakkrís, steinefni, pipar og fleiri austurlensk krydd. Þetta er afar ljúft, matarvænt, dæmigert og hægt að hafa það meða flestum mat allt frá pasta og pottréttum uppí lamb og grillað naut. Vín sem engin er svikinn af og er vel prísað.Verð kr. 2.599.- Frábær kaup. “

Post Tags
Share Post