Henri Bourgeoise Sancerre Les Baronnes 2018

 

 

Víngarðurinn segir;

„Það eru nokkur vín hér í veröldinni sem eru afar auðþekkjanleg í blindsmakki, jafnvel fyrir byrjendur í þeirri vafasömu skemmtun. Þetta á sérstaklega við um ákveðnar þrúgur og jafnvel frá ákveðnum svæðum. Það er tildæmis erfitt að ruglast á Gewurztraminer frá Alsace og nokkru öðru, Pinot Noir frá Búrgúnd er oftast nær auðgreinanlegur (ég hef reyndar haft rangt fyrir mér þar, sem segir manni að Búrgúndarrauðvín eru ekki einstök) og svo er þrúgan Sauvignon Blanc ein af þeim sem erfitt er að rugla saman við annað (þótt það sé hægt).

Sauvignon Blanc er ættuð frá Frakklandi en merkilegt nokk þá er hún líklega upprunin í Bordeaux (hún er meðal annars annað foreldri Cabernet Sauvignon) og á sér afar langa sögu, enda hefur hún breiðst víða út um Frakkland og er ræktuð nánast allstaðar, en á seinni tímum hefur hún helst blómstrað í kalkríkum jarðveginum efst í Leirudalnum (Loire), innan skilgreindra víngerðarsvæða einsog Pouilly og Sancerre en þetta vín er einmitt þaðan.

Henri Bourgeoise er ekki óþekktur framleiðandi hér, en vín frá honum (Litli Burgeisinn, Petit Bourgoise) hafa fengið þrisvar umfjöllun hér og sá besti var án vafa 2014 árgangurinn. Það vín er ekki skilgreint sem Sancerre því þrúgurnar koma frá víðara svæði en þetta hér, sem er alvöru Sancerre og þá auðvitað dýrara vín. En það er líka að spila í annari deild en Litli Burgeisinn.

Það hefur ljósan, strágulan lit og meðalopna, dæmigerða angan af stikilsberjum, krömdu sólberjalaufi, sítrónu, ananas, steinaávöxtum, kerfil, agúrku og kalkríkum steinefnum. Þetta er auðþekkjanlegur og yndislega kryddaður ilmur, brakandi ferskur og það dugar manni bara að reka nefið ofaní glas af því til að fá munnvatnið til að streyma fram. Það er svo meðalbragðmikið, þurrt og sýruríkt með góða lengd og frábært jafnvægi. Þarna má greina stikilsber, læm, sítrónur, steinefni, ananas, græn kryddgrös og steinaávexti. Verulega flott og dæmigert, afar ferskt og matarvænt þótt ég myndi ekki fúlsa við því sem fordrykk á undan máltíðinni. Hafið það með allskonar forréttum, fisk og skelfisk og það er einnig fínt með ljósu fuglakjöti. Það besta sem hægt er að finna með geitaosti. Verð kr. 3.999.- Mjög góð kaup. “

Post Tags
Share Post