Saint Clair Vicar’s Choice Sauvignon Blanc 2019

 

 

Víngarðurinn segir;

„Enn á ný er kominn nýr árgangur af þessu trausta víni sem Víngarðurinn hefur fjallað ótalsinnum um og þótt það hafi alla tíð fengið góða dóma hjá mér, þá er þessi nýjasti árgangur sennilega sá besti og þarna eru neytendur að fá heilmikið fyrir peninginn.

Þeir sem á annað borð velta vínum fyrir sér af einhverju viti ættu auðvitað fyrir löngu að hafa áttað sig á muninum á frönskum Sauvignon Blanc (einsog þeir tíðkast í Bordeaux og Sancerre, svo tvö dæmi séu tekin um dæmigerða Sauvignon Blanc) og nýsjálenskum Sauvignon. Sá fyrrnefndi er gjarnan afar sýruríkur, og getur jafnvel verið allt að því hvass, með yfirgnæfandi stikilsber og jafnvel fresskött í farangrinum. Sá nýsjálenski er alla jafna mýkri og exótískari með feitari ásjónu án þess að glata þrúgueinkennunum. Báðir stílar vissulega mjög góðir en dálítð ólíkir.

Þetta vín er strágult að lit með grænni áru og býr yfir dæmigerðum, meðalopnum ilm af suðrænum Sauvignon þar sem greina má rifsber, stikilsber, kramið sólberjalauf, ananas, peru, kex, steinefni og aspas. Það er svo meðalbrgaðmikið með afar frísklega sýru, gott jafnvægi og þéttan ávöxt. Þarna eru stikilsberin mest áberandi en einnig sítróna, pera, rifsber, ananas, græn kryddgrös, steinefni og aspas. Virkilega flott vín í alla staði, ferskt og hæfilega kryddað með ákaflega gott jafnvægi og gengur með fjölmörgum forréttum (ekki síst þar sem fiskur eða skelfiskur koma við sögu), meðalfeitum fiskréttum, ljósu fuglakjöti og auðvitað geitaosti. Verð kr. 2.699.- Frábær kaup. “

Post Tags
Share Post