Alphart Ried Tagelsteiner Chardonnay 2018

 

 

Vinotek segir;

„Weingut Alphart hefur getið sér orð sem einhver athyglisverðasti hvítvínsframleiðandi Austurríkis en vínhúsið á um 20 hektara af ekrum í Thermenregion suður af Vín. Hingað til höfum við fyrst og fremst fengið að njóta vína hér á landi sem að Alphart framleiðir úr sjaldgæfum þrúgum á borð við Neuburger og Rotgipfler en hérna er komið Chardonnay, þekktasta hvítvínsþrúga veraldar. Hún nýtur sín vel á ekrunni Ried Tagelsteiner þar sem jarðvegurinn einkennist af kalksteini.

Vínið er ljósgult, ferskjur, mild apríkósa, sítrusbörkur, eldspýta og ristaðar hnetur. Þurrt, margslungið í munni og töluvert míneralískt, þægileg selta í lokin. 3.999 krónur. Frábær kaup. Með smjörsteiktum humar.“

 

Víngarðurinn segir;

„Þið munið rétt að ég var með pistil um Neuburger-vínið frá Alphart hérna um daginn (Ried Hausberg 2018 ****) en þessi víngerð er líka að framleiða framúrskarandi vín úr frönskum/alþjóðlegum þrúgum og þessi Chardonnay er hreint afbragð og á svo sannarlega heima á jólaborðinu.

Austurríki er ár eftir ár eitt skemmtilegasta „vínland“ Evrópu en fellur oft í skuggan af þeim þremur stóru, Frakklandi, Ítalíu og Spáni enda er framleiðslan í Austurríki langt frá því að vera að svipuðu magni og gert er í þessum þremur löndum. En gæðalega séð eru afar góð vín frá Austurríki og þótt þeir sjálfir séu réttilega mjög stoltir af rauðvínunum sínum þá hef ég alltaf heillast meira af hinum einstöku hvítvínum sem þarna eru gerð. Loftslagið virðist amk henta afar vel til að gera einstök hvítvín.

Þessi Chardonnay er gylltur að lit og býr yfir meðalopnum ilm af soðnum eplum, perujógúrt, hunangi, fresíum, ananas, steinaávöxtum og léttum vanillutónum úr eikinni. Það er svo ríflega meðalbragðmikið með afar góða sýru, frábært jafnvægi og endist og endist. Það hefur þétta og búttaða áru, töluverða viðloðun með kremaða eikartóna og keim af bökuðum eplum, sætum sítrusávöxtum, austurlenskum ávaxtakokteil, apríkósumauki og steinefnum. Verulega gott, stórt og umfaðmandi Chardonnay sem fer vel með allskonar forréttum, feitum fiskréttum, kalkún og það þolir býsna bragðmikið meðlæti. Verð kr. 3.999- Frábær kaup. .“

Post Tags
Share Post