Roquette & Cazes Douro 2016

 

 

Vinotek segir;

„Roquette & Cazes er samstarfsverkefni tveggja magnaðra vínfjölskyldna sem í gegnum árin hafa byggt upp nána vináttu í gegnum ást á vínum og taka höndum saman við gerð þessa víns. Annars vegar Roquette-fjölskyldunnar sem á og rekur Quint do Crasto í Douro-dalnum í Portúgal og hins vegar Cazes-fjölskyldunnar sem á og rekur Chateu Lynch-Bages í Pauillac í Bordeaux. Vínið er gert úr þrúgum af ekrum Crasto í Douro og eru notaðar þrjár af helstu rauðvínsþrúgum Douro-dalsins, Touriga Nacional, Tinta Roriz (Tempranillo) og Touriga Franca. Þrúgurnar kunna að vera portúgalskar en stíllinn er meira í anda stóru Bordeaux-vínanna með öflugum tannískum strúktúr og áherslu á það sem Frakkar kalla „terroir“ karakteruppruna eða eðli vínekrunnar sjálfrar og allt það sem gerir hana að því sem hún er, jarðvegur, loftslag og lega.

Vínið er dökkt, svarblátt og djúpt. Kröftugur svartur berjaávöxtur, sólber, þurrkuð kirsuber, ristaðar, dökkar kaffibaunir, apótekaralakkrís og vanilla, öflugt og ágengt í munni, sýrumikið, kröftug og mikil tannín, þurrt og míneralískt. Enn afskaplega ungt. Umhellið endilega, geymið gjarnan. 3.899 krónur. Frábær kaup. Magnað vín, njótið með t.d. villibráðinni, hreindýri og rjúpum. “

Post Tags
Share Post