Roquette & Cazes 2016

 

 

Víngarðurinn segir;

Ég hef margoft bent lesendum mínum á hversu góð portúgölsk vín eru og einnig hversu góð kaup þau eru, svona í alþjóðlegum samanburði og eru þar á svipuðum stað og spænsk vín. Við höfum verið nokkuð heppin gegnum árin og fengið til landsins ansi mörg frábær eintök af portúgölskum vínum, en því miður hafa fæst þeirra náð þeirri lágmarkssölu sem þarf til að þau haldist í hillum einokunnarverslunarinnar. Sem er svo furðulegt að nú þarf eiginlega ferþvaglegt teymi af langskólagengnum iðjuleysingjum að „opna umræðuna“ um þetta ofbeldi.

Í Douro-dalnum var til skamms tíma lítið gert annað en Portvín og til þess er dalurinn einkar heppilegur. Þar er afar sólríkt, þar er jarðvegurinn steinefnaríkur og haustin eru löng með töluverðum hitasveiflum, en allt eru þetta þættir sem hjálpa til við að skapa gott hráefni. En þótt Portvín séu dásamleg þá hefur markaðurinn fyrir þau heldur staðið í stað eða jafnvel dregist saman frá því að eftirspurnin var sem mest en eftirspurnin eftir venjulegum vínum aukist að sama skapi. Ef ég man rétt þá var það Ferreira (í eigu Sogrape) sem reið á vaðið á sínum tíma og kom fram með ofur-Douro-vínið Barca Velha árið 1952 en það var svo á síðasta áratug síðustu aldar að þessi rauðvínsgerð tók mikinn kipp og nú er svo komið að hvert frábæra rauðvínið á fætur öðru frá Douro kemur fram á sjónarsviðið. Og það skemmtilega er að þarna er verið að vinna með hinar staðbundnu portúgölsku þrúgur sem áður fóru í að gera Portvín.

Þetta vín er samstarfsverkefni tveggja fjölskylda, annarsvegar Roquette-fjölskyldunnar í Quinta do Crasto og hinsvegar Cazes-fjölskyldunnar sem þekktust er væntanlega fyrir að halda utanum víngerðina í ekki ómerkari sjattóum í Bordeaux en Lynch-Bages. Ég hef einu sinni áður fengið þetta vín til umfjöllunar hérna í Víngarðinn en það var árgangurinn 2014 (****). Þessi árgangur sem nú er á ferðinni er að öllu leiti töluvert betri og eitt af bestu portúgölsku vínum sem okkur standa til boða svo það er óhætt að mæla með því.

Það er blandað úr Touriga National, Tinta Roriz og Touriga Franca og það er eikað í eitt og hálft ár í nýrri eða nýlegri eik svo útkoman er gríðarlega þétt og efnismikil. Það býr yfir ógagnsæjum plómurauðum lit og hefur vel opna angan sem er sæt og krydduð í senn. Þarna má greina sultuð rauð ber, Mon Cheri-mola, aðalbláberjasultu, plómur, þurrkaðan appelsínubörk, Muscovado-sykur, kókos, krækiberjahlaup, austurlensk krydd og lakkrís. Þetta er flókið og marglaga vín sem hefur gott af umhellingu og getur geymst í kjallaranum næstu sex árin án vandræða. Það er svo bragðmikið, sýruríkt og þétt með flauelsmjúk tannín og langan hala. Þarna má greina krækiberjahlaup, sutuð rauð ber, lakkrís, dökkt súkkulaði, þurrkaðar apríkósur, kókos, bláberjasultu, steinefni og töluvert magn af vanillu úr eikinni. Virkilega gott og mikið vín sem munar litlu að fái fullt hús og svona vín fer best með bragðmiklum steikum eða grillmat.

Verð kcr. 3.999.- Frábær kaup.

Post Tags
Share Post