Cerro Añon Reserva 2016

 

 

Víngarðurinn segir;

Þó framboðið af Rioja-vínum sé fjarri því að vera lítið þá er það samt alltaf gleðiefni þegar okkur stendur til boða svona vel prísað gæðavín, sem Cerro Añon Reservan sannarlega er. Af mörgu því sem Bodegas Olarra framleiðir þá eru þau vín sem sett eru á markaðinn undir nafninu Cerro Añon líklega þau bestu og þetta eru sannarlega ekki ofur-nútímaleg vín.

Skilgreiningar á þroskun spænskra vína er, einsog flestir eiga að vita, í nokkuð föstum skorðum og þótt margir þeir sem gera nútímaleg Rioja-vín (100% Tempranillo, ný, frönsk eik í 12-18 mánuði) hafi ákveðið að sniðganga þær skilgreiningar þá eru enn framleiðendur sem gera sín vín eftir hefðbudnari aðferð. Cerro Añon er eitt þeirra, blandað úr þremur þrúgutegundum, Tempranillo, Graciano og Mazuelo og þroskað í eldri tunnum af bandarískum og frönskum uppruna. Það býr yfir dimmum, kirsuberjarrauðum lit og hefur rétt ríflega meðalopna angan, sem er býsna hefðbundin og kunnugleg. Þarna eru sultuð kirsuber, krækiber, plóma, lakkrís, kókos, heybaggi, bismarkbrjóstsykur, pipar og leirkenndir steinefnatónar sem minna á mómold. Það er svo ríflega meðalbragðmikið, þéttvaxið og sýruríkt með afar gott jafnvægi og fínlegan bragðprófíl. Þarna má finna kirsuber, krækiber, þurrkaðan appelsínubörk, balsam, kókos. Lakkrís og pipar. Virkilega vel gert, upprunalegt og matarvænt Rioja-vín sem hefur mikla lengd og fínlega áru. Hafið það með lambakjöti eða hægelduðum svínabóg.

Verð kr. 2.899.- Frábær kaup.

Post Tags
Share Post