Vidal-Fleury Côtes du Rhône
Víngarðurinn segir;
Það er gaman að sjá hversu miklar framfarir hafa orðið á vínunum sem kennd eru við fljótið Rhône (sem við köllum á íslensku Rón) undanfarna tvo áratugi. Megnið af vínunum sem þaðan koma hafa verið rauð og þar fara auðvitað fremst í flokki hin hreinu Syrah-vín (eða næstum hreinu) frá norðurhlutanum, einsog Côte-Rôtie, Hermitage, Crozes Hermitage, Cornas og St. Joseph og þorpsvínin í suðurhlutanum einsog Gigondas, Vaqueyras eða Cairanne að ógleymdu Chateauneuf-du-Pape sem er enn eitthvað það besta sem Frakkland hefur uppá að bjóða. En undanfarna áratugi hafa einnig komið fram afar spennandi hvítvín frá þessu svæði og þau eru ekki síður unaðsleg og frábær kostur.
Vidal-Fleury er, einsog allir eiga að vita, í eigu Guigal-fjölskyldunnar og rétt einsog Guigal, gerir Vidal-Fleury allskonar vín, vítt og breitt í Rónardalnum. Við höfum meðal annars fengið hingað í hillurnar GSM-vín frá þeim, rautt Côtes du Rhône og svo þetta hvíta vín hér, en Víngarðurinn fékk árganginn 2018 hérna inn á borðið fyrir rétt tæpum tveimur árum (****1/2). Árgangurinn 2020 er hreint ekki síðri og eitt af skemmtilegustu hvítvínum sem okkur standa til boða á svona góðum prís.
Það er sem áður að mestu úr Viognier og blandað með Grenache Blanc og þessar tvær þrúgur hafa hingaðtil ekki verið þekktar fyrir skarpa sýru, en með réttum aðferðum þá verður það ekki vandamál. Það er ljós-strágyllt að lit með meðalopna og sætkennda angan sem er býsna búttuð og þarna má rekast á peru, perubrjóstsykur, fresíur, hunang, niðursoðinn ávaxtakokteil, vanillujógúrt og strokleður. Það er svo rétt ríflega meðalbragðmikið með góða sýru sem heldur bæði fitunni og hinum sæta undirtón í réttum farvegi svo vínið er í mjög góðu jafnvægi. Þarna er pera, perujógúrt, sítrónusmjör, hunang, niðursoðinn ávaxtakokteill, ananas og skemmtileg sölt steinefni í lokin. Virkilega ljúffengt og nánast of auðdrekkanlegt hvítvín sem fer vel með allskonar feitari og bragðmeiri forréttum, ljósu fuglakjöti, sushi og bragðmiklum fiskréttum.
Verð kr. 2.699.- Frábær kaup.