Roquette & Cazes 2014

 

Víngarðurinn segir;

Það eru tvö vínhús sem standa á bakvið þetta portúgalska rauðvín, annarsvegar fjölskyldan sem á Quinta do Crasto og svo fjölskyldan sem hefur rekið Chateau Lynch Bages í Bordeaux. Vínið er hinsvegar blandað úr þrúgunum Touriga National, Touriga Franca og Tinta Roriz, sem fleiri þekkja líklega sem Tempranillo. Þetta er einungis sjöundi árgangurinn af þessu víni sem kemur á markað, hafi ég reiknað rétt og það hefur um þessar mundir mjög djúpan fjólurauðan lit.
Það er svo ríflega meðalopið í nefinu með ilm sem minnir á sultuð aðalbláber, Mon Chéri-mola, plómur (eða jafnvel sveskjur með auknum þroska), heyrúllur, balsam, dökkt súkkulaði, vanilla, “ reykingarkofa og steinefni. Þetta er þéttur, dökkur og þungur ilmur enda er greinilegt að hérna er töluvert vín á ferðinni. Það er svo ríflega meðalbragðmikið með afar góða sýru og talsvert magn af mjúkum og póleruðum tannínum sem gefa þessu víni fína byggingu og töluverða lengd. Það er að byrja að fá á sig áru af þroskuðu víni, enda að verða fimm ár síðan að það var gerjað. Þarna má greina dökk og sultuð ber og þá helst bláber og aðalbláber, kirsuber, kakó, sveskjur, balsam, vanillu og jarðarlega steinefnatóna. Það borgar sig (rétt einsog með flest rauðvín, svo það sé ítrekað) að kæla þetta vín lítillega þá verður það bæði rauðara og frísklegra. Munar sáralitlu að það fái fjóra og hálfa stjörnu. Hafið með bragðmeiri Miðjarðarhafsmat, rauðu kjöti, grillmat og flottum steikum.

Verð kr. 3.799.- Mjög góð kaup.

Share Post