Rivetto Langhe Nebbiolo 2018

 

 

 

Víngarðurinn segir;

„Einn örfárra lífrænna framleiðanda um þessar mundir í Piemont er Rivetto sem staðsettur er skammt frá Serralunga d’Alba (um 5 kílómetra austur af bænum Barolo) og gerir nokkur vín og þá aðallega rauð, enda er megnið af framreiðslunni á þessum slóðum rauðvín. Þetta eru vín einsog Barbera d’Alba og auðvitað bæði Barolo og Barbaresco, en grunn-vínið frá honum, rétt einsog hjá flestum framleiðendum, er skilgreint sem Langhe Nebbiolo, sem þýðir einfaldlega að í því eru Nebbiolo-þrúgur frá Langhe sem er nokkurskonar regnhlífarskilgreining yfir hjartað í Piemonte.

Nebbiolo er sannarlega ein af bestu rauðu þrúgum þessa heims en ólíkt mörgum öðrum gæðaþrúgum þá er erfitt að gera úr henni fyrstaflokks vín nema á tiltölulega litlum bletti á jarðkringlunni. Þessi litli blettur er í kringum þorpin Barolo og Barbaresco í Langhe-hæðunum sunnan og austan við ána Tanaro en það eru einkum snefilefnin magnesíum, fosfór og járn í kalkríkum leirnum sem virðast draga fram það besta í þessari erfiðu þrúgu. Bestu víngarðarnir halla jafnan til suðurs og standa hátt enda er þykk þoka eitt af því sem einkennir veðurfarið á þessum slóðum (nebbio þýðir einmitt þoka á ítölsku) og því betra að rísa yfir hana þar sem hún þekur dalbotnana langt frameftir degi.

Þetta fína vín er meðaldjúpt að sjá með kirsuberjarauðan lit og meðalopna angan sem minnir á krækiber, Maraschino-kirsuber, sultuð bláber, lyng, karamellu, járn og leirkennda jörð. Það er svo rétt ríflega meðalbragðmikið, þétt og sýruríkt með töluverð tannín sem þó eru vel slípuð. Þarna má greina brómber, krækiber, kirsuber, þurrkaða ávexti, toffí og járnrík steinefni. Virkilega flott, vel byggt og upprunalegt Nebbiolo-vín sem fer vel með allskonar betri mat og ekki er verra að hann sé ættaður frá Norður-Ítalíu. Ég mæli með villisvepparisottó eða grillaðri sneið af ribeye með trufflusveppum. Verð kr. 3.499.- Góð kaup. “

Post Tags
Share Post