Chateau-Fuissé Pouilly Fuissé Tête de Cuvée 2018

 

 

Víngarðurinn segir;

„Það er ekki úr vegi að halda áfram umfjöllun um jólavínin með því að benda á þetta frábæra hvítvín. Það kom einnig í jólapottinn hjá Víngarðinum í fyrra (árgangurinn 2017 ****1/2) og ef eitthvað er, þá er þessi nýji árgangur jafnvel sjónarmuninum betri og bara hársbreidd frá því að hljóta fullt hús.

Pouilly Fuissé er skilgreint víngerðarsvæði í suðurhluta Búrgúndar sem kallast Mâcon. Þarna eru gerð hvít og rauð vín úr sömu þrúgum og norðar í Gull-hlíðinni, Chardonnay og Pinot Noir. Munurinn felst í jarðveginum og loftslaginu, en þarna eitlítið sunnar í landinu er hitastigið alla jafna meira og því þroskast þrúgurnar á annan hátt og hvítvínin verða gjarnan þéttari, exótískari og bragðmeiri.

Það býr yfir ljós strá-gylltum lit og hefur rétt ríflega meðalopna angan þar sem glöggt má finna kremaða eikartóna, sæta sítrónuböku, perujógúrt, bökuð epli, steinefni, hunang og heslihnetur, enda er eikin dálítið ristuð. Það er svo ríflega meðalbragðmikið, mjög glæsilegt í byggingu og endingu með afar góða sýru og lifandi ávöxt sem skilar sætum sítrusávöxtum, peru, hunangi, steinaávöxtum, eplaböku og búttuðum eikartónum. Það er í frábæru jafnvægi og svona vín getur hæglega þroskast næstu 3-5 árin í vínkjallaranum. Hafið það með allskonar feitara fiskmeti, humri og hörpudisk, ljósu fuglakjöti og öðrum bragðmeiri forréttum. Verð kr. 4.799.- Mjög góð kaup. “

Post Tags
Share Post