Rivetto Barolo Serralunga D‘Alba 2016

 

 

Víngarðurinn segir;

„Víngerðin Rivetto hefur verið reglulega til skoðunar hjá Víngarðinum í gegnum tíðina enda eru þessi lífrænu vín bæði athyglisverð og hafa sem betur fer selst það vel að þau hafa fengið pláss í hillum vínbúðanna. Um daginn var hérna umfjöllun um hið stórgóða Langhe Nebbiolo 2018 (****+) en þessi Barolo er mun stærra og flóknara vín einsog við má búast.

Víngerðin er skammt frá þorpinu Serralunga D’Alba, þrúgurnar koma frá bestu víngörðum fjölskyldunnar og eru þroskaðar á hefðbundin hátt í stórum eikarámum. Það hefur rétt tæplega meðaldjúpan lit, kirsuberjarauðan og meðalopna angan þar sem rekast má á Maraschino-kirsuber, rósir, lakkrís, kakó, beiskar möndlur, krækiberjahlaup, steinefni, línóleumdúk og gamla eik. Þetta er unglegur, flókinn og afar upprunalegur ilmur og með þessi stóru og ungu vín þá borgar sig að umhella þeim fyrir neyslu.

Það er svo rétt ríflega meðalbragðmikið, sýruríkt og unglegt með grípandi tannín. Það er lengi að koma og að sama skapi er það lengi að hverfa svo það er á mörkunum hvort að þetta sé ekki íhugunarvín á þessari stundu. En svo rifjar maður upp að þetta eru vín sem gerð eru til að hafa með mat og með réttum mat þá eykst ávöxturinn til muna. Þarna má svo rekast á Maraschino-kirsuber, krækiber, lakkrís, kakó, þurrkaðan appelsínubörk og steinefni. Mikið vín og ungt. Hafið það með meðalbragðmikilli villibráð, rauðu kjöti og svo er það frábært með norður-ítölskum mat. Ef þið eruð svo heppin að hafa trufflur á jólunum þá er þetta vínið til að hafa með.

Verð kr. 6.999.- Frábær kaup. “

Post Tags
Share Post