Muga Selecction Especial 2015

 

 

Víngarðurinn segir;

„Muga er ein besta víngerð í Rioja og kannski eitt besta „vörumerkið“ líka enda eru aðdáendur þessara vína fjölmargir hérna á Íslandi. Það er að upplagi hefðbundið og tiltölulega íhaldssamt vínhús en nokkur vína þess eru þó eiginlega svona mitt á milli að vera gamaldags og nútímaleg. Selección Especial er vín í nútímalegri kanntinum en stendur samt traustum fótum í hefðbundinni víngerð svæðisins.

Selección Especial frá Muga er tilaðmynda blandað úr þremur þrúgum, Tempranillo, Graciano og Mazuelo uppá hefðbundinn máta og eikað duglega í rúmlega tvö ár (en þó ekki eingöngu í nýrri eik) og stendur þannig að einhverju leiti fyrir utan hefðbundnar skilgreiningar á Crianza, Reserva og Gran Reserva (einsog títt er um nútímavínin). Útkoman er því heilmikill massi af eikar-auðguðum vökva sem ætti að kæta alla þá sem líkar við þesskonar vín.

Það býr yfir ógagnsæjum, plómurauðum lit og býsna opnum ilmi þar sem kremaðir eikartónarnir eru afar framarlega. Undirniðri má svo finna sultuð krækiber, sultuð aðalbláber, plómur, rjómasúkkulaði, kókos, kirsuberjalíkjör, créme brûlée og vanillu. Það er svo ríflega meðalbragðmikið, þurrara en maður á von á (eftir að hafa rekið nefið oní glasið) og með góða sýru sem heldur jafnvæginu í þessu frábæra víni. Það er þétt og með talsvert magn af fínkornóttum tannínum og lengdin er aðdáunarverð. Þarna rekst maður á rauð ber, sultuð dökk ber, súkkulaði, toffí, plómur og vanillu. Mjög flott og stórt Rioja-vín sem ætti að fara vel með öllum flottum nautasteikum lambi og hægelduðum svínabóg. Verð kr. 5.999.- Mjög góð kaup.“

Post Tags
Share Post