Chateau Lamothe-Vincent Heritage 2017

 

 

„Það er er algerlega lífsnauðsynlegt að hér séu á boðstólnum góð vín frá Bordeaux, sem kosta ekki framhandlegg eða meira. Og sem betur fer er það raunin, því við getum valið á milli nokkura rauðvína frá Bordeaux sem eru bæði vel gerð og vel prísuð. Eitt af þeim vínum sem hvað öruggustu kaupin hafa verið í undanfarin ár er Chateau Lamothe-Vincent Heritage sem er mjög góður fulltrúi nýja stílsins og maður er alltaf sáttur við það sem maður fær fyrir peningana þarna.

Nýji stíllinn í Bordeaux er kannski ekkert splunkunýr en þó má segja að það sé frekar nýtilkomið að rauðvín frá Bordeaux séu strax í upphafi mjúk og vel neysluhæf. Amk ef miðað er við víngerð í Bordeaux frá upphafi vega þar sem reglan var eiginlega að gera vín til langrar geymslu. Sumsé tannísk og sýrurík vín. Hvenær víngerðarmenn átta sig á þörf neytenda fyrir aðgengilegri vín og hver upphafsmaðurinn er, skal ósagt látið en þó verður að nefna í þessu sambandi víngerðarráðgjafan Michel Rolland sem einskonar leiðtoga þessarar stefnu en fljótlega uppúr 1980 fóru að koma fram vín í Bordeaux (og reyndar víðar um heiminn) sem hann hafði puttana í. Í fyrstu voru það eingöngu stærri og dýrari vín sem hann kom nálægt en eftir því sem meðvitund annara víngerðarmanna jókst um þá aðferð sem Michel Rolland innleiddi, þá má segja að jafnvel smæstu víngerðarhús séu ekki lengur ósnortin af þessum stíl. Og kannski hefur hlýnandi veðurfar eitthvað að segja líka.

Í öllu falli er stíllinn á Chateau Lamothe-Vincent Heritage nútímalegur eða kannski öllu heldur Kalifornískur, hversu kaldhæðnislegt sem það kann að hljóma. Það er að stæstum hluta Merlot en 20% af blöndunni er Cabernet Sauvignon og það býr yfir þéttum, fjólurauðum lit. Það er svo meðalopið í nefinu með ýmislegt innanborðs sem minnir á bláberjasultu, sólberjahlaup, kaffi, píputóbak, plómusultu, karamellu og þurrkaðar fíkjur. Það er svo ríflega meðalbragðmikið, þurrt og þétt með góða sýru, silkimjúk tannín og endist vel. Þrátt fyrir vel þroskaðan ávöxt og sætkenndan undirtón er allt jafnvægið prýðilegt. Þarna er plómusultan áberandi en einnig bláber, toffí, kaffi, sólberjahlaup og leirkennd jörð. Bordeaux í Napa-stíl, vel gert og vel prísað. Hafið það með dekkra kjöti, lamb og naut er klassík með svona mjúkum og áferðarfallegum Bordeaux-vínum. Verð kr. 2.799.- Frábær kaup.“

Post Tags
Share Post