Mazzei Poggio Badiola 2018

 

 

Víngarðurinn segir;

Mazzei-fjölskyldan í Toskana er eftilvill þekktust fyrir að gera vínin sem sett eru á markað undir nafninu á ættaróðalinu, Fonterutoli-kastalanum og það verður að segjast einsog er að þar eru á ferðinni frábær Chianti og Chianti Classico-vín, löguð að forskrift Carlo Ferrini í þéttum nútímastíl. En fjölskyldan gerir einnig vín víðar á Ítalíu og þá aðallega innan Toskana. Eitt af þeim er þetta hér, Poggio Badiola sem verður að teljast fyrirmyndar nútíma-Ítali.

Það er að mestu úr hinni ítölsku Sangiovese, eða um 65%, en afgangurinn er hinar frönsku þrúgur Merlot (um 30%) og Petit Verdot (um 5%). Það er þroskað í tæpt ár í eik (þó ekki spánýrri) og útkoman er áferðarfallegt en þó upprunalegt Toskana-vín.

Það hefur meðaldjúpan kirsuberjarauðan lit og meðalopna angan þar sem greina má súr kirsuber, plómur, marsipan, reyk, leður, svart te, kakó, sultuð krækiber og reykelsi. Það er svo meðalbragðmikið, þurrt, með ferska sýru og mjúk tannín. Þarna eru súru kirsuberin mest áberandi en svo plóman, svart te, leirkennd jörð, kakó, beiskar möndlur og reykur. Skotheldur Ítali sem gengur vel með allskyns ítölskum mat, steikum, pasta og pottréttum en einnig lambi og svínakjöti.

Verð kr. 2.999.- Mjög góð kaup.

Post Tags
Share Post